Sósíaldemókratar tilnefna ekki forseta

Anders Ygeman, t.h., ásamt Morgan Johansson dómsmálaráðherra.
Anders Ygeman, t.h., ásamt Morgan Johansson dómsmálaráðherra. AFP

Sænskir Sósíaldemókratar hyggjast ekki leggja til eigin frambjóðanda í embætti þingforseta þegar nýtt þing hefst á þriðjudaginn eftir viku. Þetta tilkynntu Stefan Löfven, formaður flokksins og forsætisráðherra, og Anders Ygeman þingflokksformaður eftir þingflokksfund í dag.

Þess í stað vilja Sósíaldemókratar samstarf við flokka hægribandalagsins, Alliansen, um næsta þingforseta. „Ef við komumst ekki að samkomulagi þvert á [hægri- og vinstri-] blokkirnar verða það í raun Svíþjóðardemókratar sem ráða för,“ segir Ygeman í samtali við sænska ríkisútvarpið.

Embætti þingforseta er hátt skrifað. Frá því stjórnarskráin var endurskoðuð árið 1974 er það nú hlutverk þingforsetans, en ekki kóngsins, að tilnefna forsætisráðherra og þá flokka sem sitja í ríkisstjórn. Ekki er nauðsynlegt fyrir tillöguna að fá stuðning meirihluta þingsins. Svo fremi sem meirihluti leggst ekki gegn nær hún fram að ganga.

Jafnaðarmaðurinn Urban Ahlin er forseti sænska þingsins. Hann er hér …
Jafnaðarmaðurinn Urban Ahlin er forseti sænska þingsins. Hann er hér hægra megin við Steingrím J. Sigfússon, kollega sinn, í Alþingishúsinu en hann var fulltrúi sænska þingsins á hátíðarþingfundinum í júlí í tilefni 100 ára fullveldisafmælis Íslands. Ljósmynd/Alþingi

Hægrimenn tregir til samstarfs - „á rangri hlið í sögubókunum“

Útspil Sósíaldemókrata nú er í samræmi við yfirlýsingar Stefans Löfvens forsætisráðherra og annarra flokksmanna eftir kosningarnar um mikilvægi þess að flokkarnir á þinginu starfi þvert á blokkirnar tvær, sem hafa einkennt sænsk stjórnmál til áratuga.

Fundur leiðtoga mið- og hægriflokkanna fjögurra sem mynda hægribandalagið, Alliansen, hófst nú í hádeginu en talið er að flokkarnir muni á fundinum koma sér saman um að tilnefna þingmann úr eigin röðum í embættið.

Expressen hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni úr röðum hægribandalagsins að gert sé ráð fyrir að frambjóðandi hægribandalagsins njóti stuðnings Svíþjóðardemókrata þó svo það hafi aldrei beinlínis borist í tal.

„Löfven skilur að hann verður þvingaður úr embætti forsætisráðherra. En hann vill geta sagt: Sjáið þið fóruð í samstarf við Svíþjóðardemókrata. Þið verðið á rangri hlið í sögubókunum!“ hefur blaðið eftir heimildarmanni innan Sósíaldemókrataflokksins.

Aukin pressa á Kristersson

Flokkar hægribandalagsins hafa verið staðfastir á því að mynda ríkisstjórn og leituðu í síðustu viku til Sósíaldemókrata eftir stuðningi en fengu ekki. Telja má víst að flokkar hægribandalagsins geti ekki myndað ríkisstjórn einir síns liðs nema með stuðningi, eða hlutleysi, þjóðernisflokksins Svíþjóðardemókrata en allir flokkar höfðu fyrir kosningar lýst því yfir að þeir hygðust ekki vinna með flokknum. Vaxandi þrýstingur er á Ulf Kristersson formann Moderaterna, stærsta flokks hægribandalagsins, að gera það engu að síður.

Expressen sendi á dögunum spurningalista til alla 4.300 fulltrúa Moderaterna á þingi, í héraðsstjórnum og sveitarstjórnum, þar sem meðal annars var spurt hvort fulltrúarnir teldu rétt að hægribandalagið tæki völdin með stuðningi Svíþjóðardemókrata. Svarhlutfall var heldur lágt, aðeins 16%, en af þeim sem tóku afstöðu sögðust 53% vilja það.

Margir frammámenn innan Moderaterna telja að flokkurinn eigi að mynda …
Margir frammámenn innan Moderaterna telja að flokkurinn eigi að mynda ríkisstjórn með stuðningi Svíþjóðardemókrata. AFP

Meðal þeirra er Ulf Adelsohn, sem var formaður flokksins á níunda áratugnum, á sama tíma og Olof Palme var forsætisráðherra. „18 prósent þingmanna eru ekki fasistar, þó að ég sé sannfærður um að það finnist óaðlaðandi Svíþjóðardemókratar,“ segir Adelsohn og vísar til þess að Svíþjóðardemókratar fengu nær 18% fylgi í kosningunum.

Hanif Bali, þingmaður Moderaterna, tekur í sama streng. Bali, sem er fæddur í Íran, kom fylgdarlaus til Svíþjóðar þriggja ára gamall og ólst upp hjá nokkrum fósturfjölskyldum. Hann hefur verið þingmaður Moderaterna frá árinu 2010 og vakti fyrst athygli fyrir baráttu sína fyrir réttindum innflytjenda og gagnrýni á „normaliseringu“ Svíþjóðardemókrata.

„Ég er þannig maður að ég tel ekki að ég verði fasisti við það eitt að tala við Svíþjóðardemókrata, ekki frekar en ég verð bóndi við það að tala við Miðflokkinn. Ég ætti ekki í erfiðleikum með þá málaflokka þar sem flokkarnir eru nánir,“ segir Bali sem hefur verið talsmaður Moderaterna í innflytjendamálum frá árinu 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert