Munu kalla mig hryðjuverkamann

Fórnarlamba Masood minnst við þinghúsið í Westminister.
Fórnarlamba Masood minnst við þinghúsið í Westminister. AFP

Ekkja Khalid Masoods, sem varð fimm manns að bana í árás á Westminister á síðasta ári, sagði fyrir dómi í dag að hún sæi eftir að hafa ekki verið varari um sig. Hún grét og bað fjölskyldur fórnarlamba Masood afsökunar, að því Guardian greinir frá.

Sagði ekkjan, Rohey Hydara, Masood hafa verið „vondan“.

Hydara ræddi í dómsalnum um hjónaband sitt við Masood, sem myrti fjóra gangandi vegfarendur er hann ók á þá og varð eftir það lögreglumann að bana með hnífi.

„Hann fékk mig til að treysta sér og ég hafði enga ástæðu til að tortryggja hann,“ sagði Hydara, en kvað samband þeirra þó hafa verið stormasamt. „Ég veit að þetta er erfitt, því það reynist mér erfitt á hverjum degi.“ Kvaðst hún eiga erfitt með að trúa því að hún hafi verið gift manni sem reyndist svo vera svo illur.

Þá sagði hún frá því að Masood hefði sent sér myndband með íslömskum bænaversum daginn sem hann gerði árásina.

Masood varð fimm manns að bana í árásinni við Westminister.
Masood varð fimm manns að bana í árásinni við Westminister. AFP

Hún kvaðst hafa fyllst sífellt meiri áhyggjum eftir að hafa séð myndir af líki árásarmannsins í fréttum og setti sig í kjölfarið í samband við lögreglu og sagðist telja að þetta væri maðurinn sinn.

Móðir Masood, sem einnig bar vitni í dag, sagðist líka hafa vitað „samstundis“ að þetta væri sonur sinn, er hún sá mynd af líki hans í fréttunum.

Sagði Janet Ajao að sonur sinn hefði alltaf verið mikill eldhugi og að hann hefði drukkið í óhófi og lent í slagsmálum áður en hann gerðist íslamstrúar. Kvaðst hún jafnvel hafa óttast að hann ætti eftir að verða einhverjum að bana á þeim tíma.

Hún rifjaði upp er þau hittust síðast. „Hann horfði á mig og sagði: „Þeir eiga eftir að kalla mig hryðjuverkamann, en ég er það ekki“,“ sagði hún. Masood hafi síðan gengið út úr eldhúsinu heima hjá henni og hún ekki sagt neitt. „Það var einfaldlega af því að ég hafði ekki hugmynd um hvað hann var að meina,“ sagði Ajao.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert