Lögregla lokar Escobar safni

AFP

Kólumbíska lögreglan hefur lokað litlu safni tileinkuðu eiturlyfjabaróninum Pablo Escobar í Medellín í Kólumbíu. 

Lögreglan réðst inn á safnið, sem er í eigu bróður Escobar, og lokaði því þar sem ekki var til staðar rekstarleyfi í ferðamannaiðnaði. Nokkrir erlendir ferðamenn voru staddir á safninu þegar lögregla greip til aðgerða. BBC greinir frá.

Á hátindi ferils Escobar sá eiturlyfjasmyglhringur hans Bandaríkjunum fyrir 80 prósent af öllu því kókaíni sem kom inn í landið. Escobar var í byssubardaga við lögreglu árið 1993.

Viðkoma á safninu er hluti af skipulagðri ferð um borgina á slóðir smyglara sem ferðamönnum býðst að fara í, en þar má meðal annars sjá bíla og mótorhjól sem voru í eigu eiturlyfjabarónsins.

AFP

„Við lokuðum tímabundið þessari starfsemi sem er tileinkuð einum sorglegasta glæpamanninum úr hópi þeirra sem hafa valdið hvað mestum skaða hér í borg,“ sagði lögreglustjóri í samtali við dagblaðið El Colombiano. „Eins og það sé ekki nóg þá var starfsemin ekki í samræmi við lög og reglur.“

Í smyglaraferðunum er einnig boðið upp á heimsókn að gröf Escobar og glæsihýsi sem hann átti í borginni. Borgarstjóri Medellín gagnrýndi nýlega harðlega þessar ferðar sem sýna líf smyglarans í dýrðarljóma, þar á meðal líf Escobar.

Allt frá upphafi tíunda áratugar síðustu aldar hafa borgarstjórar Medellín lagt mikla vinnu í að uppræta smyglhringi og gengi, meðal annars með breyttri félagsmála- og menntastefnu. Þrátt fyrir að mikið hafi dregið úr ofbeldisglæpum í borginni eru þar enn starfandi eiturlyfjahringir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert