Losaði sig við lík 9 ára stúlku í skóginum

Peggy Knobloch hvarf 2001, en líkamsleifar hennar fundust ekki fyrr …
Peggy Knobloch hvarf 2001, en líkamsleifar hennar fundust ekki fyrr en árið 2016. AFP

Saksóknarar í Þýskalandi segja karlmann hafa viðurkennt að hafa losað sig við lík níu ára stúlku sem hvarf fyrir 17 árum síðan. Stúlkan, Peggy Knobloch, hvarf á leið heim úr skóla í Bæjaralandi árið 2001 og hefur málið verið ein stærsta ráðgáta þýsku lögreglunnar.

Lík Peggyar fannst ekki fyrr en árið 2016, er maður sem var við sveppatínslu rakst á líkið í skóglendi í Thüringen, skammt frá heimili hennar.

Maðurinn, sem þýskir fjölmiðlar nefna Manuel S, neitar því að hafa orðið Peggy að bana. Hann viðurkennir hins vegar að hafa tekið við líki hennar af öðrum manni og að hann hafi séð um að grafið líkið í skógi í nágrenninu. BBC segir manninn ekki hafa enn verið ákærðan, en að verið sé að rannsaka hvort hann hafi átt þátt í morðinu.

Mikil leit var gerð að Peggy er hún hvarf og náði leit hers og lögreglu allt til Tékklands og Tyrklands, en talið var að henni hefði verið rænt og síðan myrt.

Einn maður, með þroskahömlun var dæmdur fyrir morðið á Peggy árið 2004 og var hann sagður hafa myrt hana til að fela kynferðislega misnotkun sína á henni. Hann fékk dóminum snúið við tíu árum síðar, en hann dvaldi á geðsjúkrahúsi þann tíma sem hann var í haldi.

Þessi nýjasta vísbending lögreglu kom viku eftir að hún gerði húsleit á heimili Manuel S.  Er Manuel S. sagður hafa greint lögreglu frá því að annar maður hafi vísað sér á líflausan líkama Peggyar á stoppistöð í heimabæ hennar Lichtenberg. Þegar honum tókst ekki að vekja hana til lífsins, segist Manuel S. hafa vafið Peggy inn í teppi og hann hafi því næst farið með hana út í nærliggjandi skóg. Nokkrum dögum síðar brenndi hann tösku hennar og jakka heima hjá sér.

Saksóknari staðfesti við fréttamenn að Manuel S. Hefði verið látinn laus þar sem „engin knýjandi grunur“ væri í málinu. Manuel S. hefði gefið upp nafn mannsins sem hann hitti á stoppistöðinni og að ekki yrðu frekari upplýsingar, m.a. varðandi dánarorsök Peggyar veittar að sinni.

Að sögn þýskra fjölmiðla verður ekki hægt að ákæra Manuel S. fyrir annað en morð, þar sem önnur brot málinu sem kunna að tengjast málinu eru nú fyrnd.

Fyrir tveimur árum fundust DNA leifar af illræmdum nýnasista, sem lést árið 2011, í nágrenni þess staðar þar sem lík Peggyar fannst. Ekki tókst hins vegar að sanna að einhver tengsl hefðu verið þar á milli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert