„Nú þurfum við allar að standa saman“

Bolsonaro er vægast sagt umdeildur og hafa um 2,5 milljónir …
Bolsonaro er vægast sagt umdeildur og hafa um 2,5 milljónir kvenna sameinast í Facebook-hópi til að reyna að koma í veg fyrir að hann verði forseti. AFP

Hægri öfgamaðurinn Jair Bolsonaro sem kallað hefur konur hálfvita og gert grín að nauðgunum gæti innan nokkurra vikna orðið næsti forseti Brasilíu þar sem búa um 108 milljónir kvenna. Fylgi hans hefur farið vaxandi eftir að hann særðist hættulega í hnífaárás í byrjun september og hefur nú um 26 prósent fylgi samkvæmt skoðanakönnunum. Bolsonaro hefur einnig hneykslað með yfirlýsingum sem þykja lýsa kynþáttahatri og fordómum í garð samkynhneigðra.

Fjölmennur hópur brasilískra kvenna hefur nú tekið málin í sínar hendur og vinnur hart að því að koma í veg fyrir að Bolsonaro nái kjöri. Um 2,5 milljónir brasilískra kvenna hafa á síðustu dögum gengið í hóp á Facebook sem stofnaður var í þeim tilgangi að stöðva hann á vegferð sinni. Hópurinn var stofnaður þann 30. ágúst síðastliðinn

„Nú þurfum við allar að standa saman og kom í veg fyrir að þessi skelfing muni eiga sér stað í landinu okkar,“ segir Maíra Motta, 40 ára heimspekikennari, í samtali við The Guardian. Hún er ein þeirra sem gengið hefur í hópinn.

Lítill neisti kveikti mikið bál

Ludmilla Teixeira, 36 ára stjórnandi í auglýsingabransanum, segist hafa stofnað hópinn: Konur sameinist gegn Bolsonaro, í þeim tilgangi að búa til vettvang þar sem hægt væri að skipuleggja og samræma mótmæli gegn fordómafullum, fasískum stjórnmálamanni og kvenhatara. Á einum sólarhring gengu um 600 konur í hópinn.

Fylgi Bolsonaro hefur farið vaxandi frá því hann særðist í …
Fylgi Bolsonaro hefur farið vaxandi frá því hann særðist í hnífaárás í byrjun september. AFP

Hópurinn hefur vakið mikla athygli og orðið fyrir árásum fjölmargra tölvuhakkara þannig stjórnendur brugðu á það ráð að breyta honum í leynilegan hóp. Sá sem vill ganga í hópinn þarf því að þekkja einhvern sem er þar fyrir til að fá inngöngu.

Teixeira sem er frá Salvador segir að hún sé lítill neisti sem hafi kveikt mikið bál víða um Brasilíu. „Við bjuggumst við því að hópurinn myndi vaxa, en ekki svona hratt.“

Ekki á móti honum sem manneskju

Motta og Teixeira segja meðlimi hópsins koma úr öllum stéttum og þjóðfélagshópum. Þar sé að finna eldri konur, lögfræðinga, húsmæður, transkonur, lækna, rithöfunda og opinbera starfsmenn. Það sem sameinar þær er óttinn við að maður með svo eitraðar skoðanir á konum og minnihlutahópum verði leiðtogi landsins.

„Það er hræðilegt að hugsa til þess að við gætum fengið forseta sem lætur sig ekki varða jafnrétti kynjanna, sem er þeirrar skoðunar að konur skuli fá greidd lægri laun en karlmenn,“ segir Teixeira.

„Við erum ekki á móti Jair Bolsonaro sem manneskju og við fordæmum árásina sem hann varð fyrir. En við getum ekki látið það gerast að einhver með svo andlýðræðislega sýn á réttindi kvenna verði háttsettasti maður Brasilíu.

Teixeira segist óttast vilja Bolsonaro til að herða lög um fóstureyðingar, en hún bendir á að skoðanir hans ógni ekki bara konum. Þær séu vissulega hans skotspónn, en ekki sá eini. Réttindum margra annarra hópa sé ógnað nái hann kjöri.

„Hann er guðhræddur fjölskyldumaður“ 

Þrátt fyrir að Bolsonaro hafi legið á sjúkrahúsi frá því hann var stunginn fyrr í mánuðinum sýna skoðanakannanir að fylgi hans hafi aukist. Óvinsældir hans meðal kvenna gætu þó sett strik í reikninginn. En hann nýtur 75 prósent minni stuðnings meðal kvenna en karla. Það er mesta bil á milli hlutfalls kynjanna hjá einum frambjóðanda í sögu Brasilíu.

Það er ekki stór hópur kvenna sem styður Bolsonaro en …
Það er ekki stór hópur kvenna sem styður Bolsonaro en þær hafa einnig stofnað Facebook hóp. AFP

Kvenkyns aðdáendur hans eru reyndar með sinn eigin hóp á Facebook, sem samanstendur af 30 þúsund konum. „Ég elska hann, segir Katarina Abreu, ein af stuðningsmönnum Bolsonaro sem söfðnuðust saman á kosningabaráttufundi í Recife nýverið. Spurð út í umdeildar yfirlýsingar hans varðandi konur segir hún: „Það eru allir smá karlrembur í sér. Það er tilgangslaust að ljúga því.“

Cassya Marques, 33 ára nemi, sem var á sama fundi, neitar því að frambjóðandi hennar sé kvenhatari. „Hann sagði aldrei að honum væri sama um konur eða að konur væru minna virði. Hann sagði það aldrei,“ segir hún.

„Hann er guðhræddur fjölskyldumaður. Hann er maður með gott hjarta og það er það sem skiptir máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert