Repúblikanar biðjast afsökunar á auglýsingu

Auglýsinginn sem Repúblikanaflokkurinn í Fort Bend birti í tilefni að …
Auglýsinginn sem Repúblikanaflokkurinn í Fort Bend birti í tilefni að trúarhátíð hindúa hafði ekki tilætluð áhrif.

Bandaríski Repúblikanaflokkurinn hefur beðið fólk sem er hindúatrúar afsökunar, eftir að auglýsing sem ætluð var að höfða til þeirra reyndist þess í stað vera móðgandi.

Auglýsingin var birt í tilefni að trúarhátíð hindúa fyrir guðinn Ganesha. Guðinn  er með fílshöfuð, en fíllinn er einnig tákn Repúblikanaflokksins. Undir mynd af Ganesha stóð „Hvort myndir þú tilbiðja asna eða fíl? Valið er þitt,“ en asninn er tákn Demókrataflokksins.

Samtök hindúa í Bandaríkjunum (HAF) segja auglýsinguna „vafasama“ og fóru fram á að Texasdeild Repúblikanaflokksins, sem birti auglýsinguna í blaði í ríkinu, útskýrði hana.

„Þó að við kunnum að meta tilraun repúblikana í Fort Bend til að ná til hindúa á hátíð sem er hindúum mikilvæg, þá er auglýsingin – sem dregur samasemmerki milli þeirrar lotningar sem hindúar sýna Ganesha við það að velja stjórnmálaflokk út frá dýrinu sem sé tákn þess – bæði vafasöm og móðgandi,“ sagði Rishi Bhutada stjórnarmaður í HAF.

BBC segir marga hindúa hafa deilt auglýsingunni á Twitter og beðið flokkinn að kalla hana til baka.  Repúblikanaflokkurinn segir auglýsingunni ekki hafa verið ætlað að smána siði eða hefðir hindúa.

„Við biðjum alla þá sem auglýsingin móðgaði einlæglega afsökunar,“ sagði Jacey Jetton, stjórnarformaður Repúblikanaflokksins í Fort Bend sýslu á fundi með fréttamönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert