Lögreglukonunni sagt upp störfum

Botham Shem Jean var borinn til grafar 13. september.
Botham Shem Jean var borinn til grafar 13. september. AFP

Lögreglukonu í Dallas í Texas-ríki í Bandaríkjunum, sem skaut svartan karlmann til bana á heimili hans fyrr í þessum mánuði sem hún taldi að eigin sögn að væri hennar íbúð, hefur verið sagt upp störfum. Lögreglustjórinn U. Renee Hall tilkynnti þetta í dag.

Lögreglukonan Amber Guyger, sem sjálf er hvít, hefur verið ákærð fyrir morð fyrir að hafa skotið Botham Shem Jean til bana en hann var innflytjandi frá eyríkinu Sankti Lúsíu. Hafði hann lokið háskólanámi í Bandaríkjunum og starfaði hjá endurskoðendafyrirtæki.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni í Dallas að rannsókn innra eftirlits hefði leitt til þeirrar niðurstöðu að Guyger hafi sýnt af sér hegðun sem ekki væri ásættanleg en hún sagðist í kjölfar dauða Jeans hafa talið sig vera í eigin íbúð og að hann væri innbrotsþjófur.

Guyger sagðist hafa séð manneskju bregða fyrir í íbúðinni og skotið tveimur skotum eftir að hún hefði ekki svarað henni þegar hún kallaði til hennar. Mikil mótmæli urðu í kjölfar málsins og voru yfirvöld meðal annars gagnrýnd fyrir að draga lappirnar í rannsókn þess.

Lögreglukonan Amber Guyger.
Lögreglukonan Amber Guyger. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert