Skólaveggspjald í hringiðu deilna

Laura Huhtasaari.
Laura Huhtasaari. Wikipedia/Soppakanuuna

Finnskur skóli er lentur í hringiðu deilna við þingmann þjóðernisflokksins Finnaflokksins, sem áður hét Sannir Finnar, vegna verkefnis sem nemendur unnu um innflytjendur.

Þingmaður Finnaflokksins, Laura Huhtasaari, birti á Twitter mynd af veggspjaldi sem þrír fimmtán ára nemendur í Tampere unnu. Á veggspjaldinu er fyrirsögnin Finnland eða dauði. Á veggspjaldinu eru síðan myndir af báti með flóttafólki og finnskum stjórnmálamönnum.

Eftir að Huhtasaari birti myndina fór allt á hliðina í finnskri þjóðmálaumræðu þar sem ólíkar skoðanir eru um hvort þetta væri viðeigandi verkefni fyrir skólakrakka.

Einnig hefur verið rætt um hvers vegna þingmaðurinn valdi að birta nöfn nemendanna sem unnu verkefnið á Twitter.

Verkefnið er hluti af stærra verkefni á vegum Tampere-borgar þar sem fjallað er um velferðartengd málefni. Þeir völdu innflytjendur sem þema verkefnisins. Vinstra megin við flóttabátinn undir fyrirsögninni Finnland settu nemendurnir myndir af forseta Finnlands, Sauli Niinisto, og Pekka Haavisto, þingmanni Græningja. Hinum megin við myndina af bátnum eru myndir birtar af Huhtasaari og formanni Finnaflokksins, Jussi Halla-aho, undir fyrirsögninni dauði.

Þar sem deilurnar verða sífellt hatrammari á netinu varðandi veggspjaldið var ákveðið að fá öryggisvörð til starfa í skólanum í dag af ótta við að nemendurnir sem unnu verkefnið verði fyrir árásum og eins skóli þeirra.

Huhtasaari, sem er fyrrverandi kennari, var mjög ósátt við veggspjaldið og skrifaði um það á Twitter um leið og hún birti nöfn nemendanna sem og skólans sem þeir eru í. Hún segir að nokkrir nemendur hafi haft samband við hana og greint frá því að kennarar við skólann hafi orðið uppvísir að hatri í garð réttkjörinna þingmanna. Kennararnir hafi jafnframt hvatt nemendur til hatursorðræðu í þeirra garð, það er stjórnmálamanna.

Einhverjir hafa tekið undir með henni og dregið í efa réttmæti þess að skólar ýttu undir slíka framkomu. Eins hvort það eigi ekki að reka kennara sem beri ábyrgð á slíku úr starfi.

Aðrir hafa gagnrýnt Huhtasaari fyrir að birta nöfn námsmannanna sem hefur valdið því að þeir hafa orðið fyrir hótunum um líkamsmeiðingar.

Yfirkennari í skólanum segir að myndin hafi verið tekin úr samhengi og veggspjaldið sé alfarið unnið af krökkunum. Enginn hafi sagt þeim hvaða viðfangsefni þeir ættu að taka fyrir. 

Á BBC kemur fram að Finnaflokkurinn hafi fengið tæplega 20% fylgi í kosningunum 2014 en skoðanakannanir bendi til þess að þeir séu með um 10% fylgi. Eitt af stefnumálum flokksins er að takmarka heimild fólks til að flytja til Finnlands frá ríkjum utan ESB við að þeir flytji með sér efnahagslegan ábata fyrir Finnland.

Huhtasaari var frambjóðandi flokksins í forsetakosningunum fyrr á árinu og fékk 6,8% atkvæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert