Fyrrverandi forseti dæmdur í fangelsi

Lee Myung-bak.
Lee Myung-bak. AFP

Fyrrverandi forseti Suður-Kóreu, Lee Myung-bak, var í dag dæmdur í 15 ára fangelsi fyrir spillingu. Lee, sem gegndi forsetaembætti landsins á árunum 2008-2013, var meðal annars sakfelldur fyrir fjárdrátt, fyrir að hafa greitt mútur og misnota vald sitt.

Fram kemur í frétt AFP að Lee, sem er 76 ára gamall, hafi enn fremur verið dæmdur til þess að greiða sekt sem nemur rúmum einum milljarði króna. Lee var sakfelldur í apríl en dómur kveðinn upp yfir honum í dag í héraðsdómi í höfuðborg landsins, Seoul.

Niðurstaða dómsins er að Lee hafi í raun verið eiginlegur eigandi umdeilds fyrirtækisins að nafni DAS sem selur bílavarahluti. Lee hafi sagt fyrirtækið í eigi bróður síns. Hann hafi notað hagnað af rekstri þess til þess að greiða háar fjárhæðir í mútugreiðslur.

Enn fremur segir í fréttinni að Lee hafi einnig verið sakfelldur fyrir að taka við háum fjárhæðum frá hátæknifyrirtækinu Samsung fyrir að náða stjórnarformann þess, Lee Kun-hee, sem dæmdur hafði verið í fangelsi fyrir skattaundanskot.

Þá kemur fram að allir fyrrverandi forsetar Suður-Kóreu sem enn væru á lífi hafi verið dæmdir fyrir glæpsamleg athæfi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert