Segja Khashoggi hafa verið pyntaðan

Sádi-arabískir embættismenn fyrir utan ræðisskrifstofuna í Istanbúl í dag. Tyrklandsforseti …
Sádi-arabískir embættismenn fyrir utan ræðisskrifstofuna í Istanbúl í dag. Tyrklandsforseti segist fylgjast grannt með framvindu rannsóknar á hvarfi blaðamannsins á ræðisskrifstofunni á þriðjudaginn sl. AFP

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti fylgist grannt með máli blaðamannsins Jamal Khashoggi sem talið er að hafi verið myrtur inni í ræðisskrifstofu Sádi-Arabíu í tyrknesku borginni Istanbúl. Þetta sagði Tyrklandsforseti í dag við fjölmiðla. Reuters greinir frá.

Erdogan sagði að yfirvöld væru að fara yfir efni úr öryggismyndavélum og kanna flugupplýsingar vegna málsins. Khasoggi fór inn á ræðisskrifstofuna á þriðjudaginn var til að sækja þangað skilnaðarpappíra. Unnusta hans beið fyrir utan skrifstofuna í hátt í hálfan sólarhring en sá hann aldrei yfirgefa húsið.

Tveir tyrkneskir embættismenn segja hann hafa verið myrtan, en sögusagnir af því hafa verið staðfestar af fleiri tyrkneskum embættismönnum, sem einhverjir hafa einnig haldið því fram að Khashoggi hafi verið pyntaður áður en hann var drepinn.

Ræðismaður Sádi-Arabíu fullyrðir aftur á móti að hann hafi yfirgefið skrifstofuna áður en hann hvarf. Khashoggi hefur búið í Bandaríkjunum síðan í fyrra í sjálfskipaðri útlegð eftir að hann gagnrýndi stefnumál sádi-arabíska prinsins Mohammed bin Salman.

„Umferð inn og út af ræðisskrifstofunni, flugvallargögn og efni úr öruggysmyndavélum er til skoðunar hjá okkur. Við ætlum að komast til botns í þessu,“ sagði Erdogan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert