Hjólabrettahetjan heiðruð

Joaquin Echeverria Alonso og Maria Miralles De Imperial Hornedo, foreldrar …
Joaquin Echeverria Alonso og Maria Miralles De Imperial Hornedo, foreldrar Ignacio Echeverria, með orðuna. AFP

Bankastarfsmaðurinn Ignacio Echeverria, sem reyndi að bjarga konu í hryðjuverkaárásinni í London í júní á síðasta ári eingöngu vopnaður hjólabrettinu sínu, var á meðal þeirra sem voru heiðraðir af Elísabetu Bretadrottningu í Buckingham-höll í dag.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að faðir Echeverria, Joaquin Echeverria Alonso, hafi tekið við verðlaununum, en sonur hans var á meðal þeirra átta sem létu lífið í árásinni þar sem þrír hryðjuverkamenn réðust á gangandi vegfarendur vopnaðir hnífum.

Echeverria var á leið heim til sín frá hjólabrettaæfingu þegar hryðjuverkaárásin var gerð. Sá hann hvar einn hryðjuverkamannanna réðst á konu og reyndi hann að bjarga henni. Hann var kallaður hjólabrettahetjan í fjölmiðlum í kjölfar árásarinnar.

Faðir Echeverria tók við Georgs-orðunni úr hendi drottningar og sagði viðurkenninguna á hugrekki sonar síns skipta miklu. Hann hafi verið örlátur maður og alltaf verið reiðubúinn til þess að hjálpa þegar þess hafi verið þörf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert