Neitar að fjarlægja ljónin af svölunum

Ljónið Numbi þiggur hér bita frá eiganda sínum, sem neitar …
Ljónið Numbi þiggur hér bita frá eiganda sínum, sem neitar að fjarlægja ljónin af svölunum. AFP

Maður nokkur í Mexíkóborg neitar að láta frá sér þrjú ljón sem hann er með á svölum sínum. Mexíkósk yfirvöld eru hins vegar þeirrar skoðunar að finna eigi heppilegri heimkynni fyrir ljónaþríeykið.

BBC segir öskur ljónanna hafa vakið áhyggjur hjá íbúum í þessu þéttbýla blokkarhverfi og hafa nágrannar m.a. kvartað á samfélagsmiðlum yfir ljónunum.

Maðurinn, Omar Rodríguez, segist halda ljónin, sem eru hvít, af því hann vilji að barnabörn sín fái að kynnast þessari ljónategund sem er í útrýmingarhættu að því er dagblaðið El Universal greinir frá.

„Ég veit að þetta eru kannski ekki bestu aðstæðurnar,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Rodríguez. „Bestu aðstæður fyrir ljónahald væru afrísku slétturnar þar sem þau gætu hlaupið um frjáls, en þú veist...“

Omar Rodríguez segist halda ljónin, sem eru hvít, af því …
Omar Rodríguez segist halda ljónin, sem eru hvít, af því að hann vilji að barnabörn sín fái að kynnast þessari ljónategund sem er í útrýmingarhættu. AFP

Rodríguez segist hafa haldið ljónin í 20 ár og hann sé með réttu pappírana frá Profepa, umhverfisstofnun Mexíkó. Yfirvöld eru á öðru máli. Þau segja hann ekki hafa sýnt fram á réttu pappírana og að aðstæðurnar séu ekki heppilegar fyrir ljónin.

Honum hefur verið gert að heimila skoðun á heimili sínu í dag, annars kunni málinu að vera vísað til skrifstofu ríkissaksóknara. Þá var honum einnig gert að framvísa pappírum um uppruna ljónanna.

Áhyggjur íbúa jukust eftir að maður nokkur varð á sunnudag fyrir árás ljóns sem hann hélt sem gæludýr. Atburðurinn átti sér stað í Ciudad Juárez í norðurhluta Mexíkó og segir fréttavefurinn Milenio að eigandi ljónsins hafi komið drukkinn heim og hafi öskrað á dýrið, sem brást við með því að bíta hann.

Nojoch (t.h.) og Gorda (t.v.), eru tvö ljónanna sem búa …
Nojoch (t.h.) og Gorda (t.v.), eru tvö ljónanna sem búa á svölum Omars Rodríguez í Mexíkóborg. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert