Neitar ekki meintu framhjáhaldi Trump

Donald Trump og Melania Trump í Hvíta húsinu í ágúst …
Donald Trump og Melania Trump í Hvíta húsinu í ágúst síðastliðnum. AFP

Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, hefur vísað á bug þeirri umræðu sem verið uppi um að Donald Trump, eiginmaður hennar, hafi haldið framhjá henni með klámmyndastjörnu og fleiri konum. Melania segist hafa „um marga aðra hluti að hugsa“.

Í viðtali við sjónvarpsstöðina ABC News, sem verður birt í heild sinni seinna í dag, neitaði hún samt ekki meintu framhjáhaldi forsetans.

Spurð hvort hún, líkt og aðrar forsetafrúr sem hafi þurft að takast á við ótrúa eiginmenn sína, hefði fundið fyrir álagi í hjónabandinu, sagði hún einfaldlega: „Þetta er ekkert áhyggjuefni hjá mér eða eitthvað sem ég hugsa um“.

Hún bætti við: „Ég er móðir og forsetafrú og ég hef um margt annað að hugsa og gera. Ég veit að fólk veltir vöngum og fjölmiðlar hafa gaman af því að fjalla um hjónabandið okkar. Það er auðvitað ekki alltaf gaman en ég veit hvað er rétt og hvað er rangt og hvað er satt og ósatt.“

Melania Trump á ferðalagi sínu í Afríku.
Melania Trump á ferðalagi sínu í Afríku. AFP

Allt í góðu á milli forsetahjónanna

Spurð hvort hún elskaði eiginmann sinn sagði hún: „Já, það er gott á milli okkar. Fjölmiðlar eru sífellt með vangaveltur og slúður. Það er ekki alltaf allt rétt sem kemur þar fram.“

ABC tók viðtalið á meðan á ferðalagi forsetafrúarinnar til Afríku stóð í síðustu viku.

Rudy Giuliani, lögmaður Trump, sagði í júní að Melania trúi orðum Trump um að hann hafi ekki átt í ástarsambandi fyrir áratugi síðan með klámmyndaleikkonunni Stormy Daniels. Spurð hvort ummæli Giuliani eigi við rök að styðjast kvaðst Melania aldrei hafa rætt við Giuliani um málið. Sagðist hún ekki vita hvers vegna hann hélt þessu fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert