Notaði sparifé látins nágranna í pítsur

mbl.is/Ásdís

Karlmanni. sem eyddi 6.000 pundum (um 922.000 kr.) af sparifé látins nágranna síns í pítsur hefur verið tilkynnt að hann eigi fangelsisdóm yfir höfði sér, að því er BBC greinir frá.

Maðurinn, Robert Sharkey, var í síðasta mánuði fundinn sekur í 11 ákæruliðum um að hafa látið hjá líða að tilkynna að nágrannakona hans væri látin og fyrir að stela frá henni.

Sagði dómarinn Sharkey vera sekan um „röð illkvittina brota“. Meðal þeirra var að nota eitt af debetkortum nágrannans, Marie Colon, til að kaupa pepperóní pítsur fyrir tæp 6.000 pund.

Brotin áttu sér stað er Sharkey bjó fyrir ofan íbúð Colon í Poleglass, einu úthverfa Belfast á Norður-Írlandi.

„Sama hvernig sem litið er á það þá er þetta röð illkvittinna, andstyggilegra brota gegn heiðvirðri konu sem var greinilega berskjölduð sökum aldurs,“ sagði dómarinn. „Þetta er svívirðileg hegðun, sem snertir við öllum réttþenkjandi einstaklingum.“

Conlon var lýst sem einstaklingi sem hélt sig út af fyrir sig og var í litlu sambandi við fjölskyldu sína. Hún lést í íbúð sinni í janúar 2015.

Sharkey hefur viðurkennt að í október 2015 hafi hann tekið eftir að póstur Colons var tekin að hlaðast upp í sameign hússins. Hann hafi þá opnað hurðina á íbúð hennar með því að sparka í hana.

Hann tók handtösku og peninga sem hann fann í íbúðinni. Sagði hann lögreglu að hann hefði tekið um 50 pund af því að „á þeim tíma var hann með peningaáhyggjur“.

Hann hafi hins vegar ekki tilkynnt um lát Colon af því að hann var hræddur við að hafa samband við lögreglu, þar sem hann var á skilorði vegna dóms fyrir róstusama hegðun.

Pantaði daglega pepperónípítsu með ansjósum

Fékk kviðdómur að heyra að Sharkey hefði lagt númer debetkorts Colons á minnið og að hann hefði um fimm mánuðum síðar pantað annað kort og látið senda á heimili hennar.

Yfir tveggja ára tímabil notaði hann upplýsingarnar til að kaupa pítsur frá Dominos fyrir tæp 6.000 pund, en hann pantaði sér á tímabilinu daglega níu tommu pítsu með pepperóní og ansjósum ásamt tveimur safafernum sem hann lét senda á íbúð sína í sama fjölbýlishúsi.

Er starfsfólk pítsastaðarins sagt hafa vísað til Sharkey sem „fiskigæjans“.

Þegar lögregla kom inn í íbúð hans fann hún stafla af tómum pítsakössum eftir netpantanir hans ásamt bankaupplýsingum Colons, sem enn var að fá ellilífeyri sinn greiddan inn á reikninginn þar sem engum utan Sharkey var kunnugt um lát hennar.

Hann notaði kortið einnig til að versla á fleiri stöðum m.a. Sainsbury's matvöruverslunum og gætti þess að borga reikninga Colons til að forðast að það kæmist upp um málið. Þá notaði hann gamlan síma og annað SIM-kort við pantanirnar, einnig í því skyni að forðast að upp um sig kæmist.

Allt í allt sveik Sharkey 11.700 pund úr dánarbúi Colons.

Lögfræðingur Sharkey sagði skjólstæðing sinn biðja fjölskyldu Colon innilega afsökunar og sagði handtökuna hafa reynst honum vissan létti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert