Rannsaka hrottaleg morð þriggja kvenna

Mynd/Skjáskot af Google Maps

Gríska lögreglan rannsakar nú morð á þremur konum sem fundust með fjölmörg stungusár við ána Evros, en um er að ræða svæði þar sem flóttafólki er smyglað ólöglega inn í landið frá Tyrklandi.

Samkvæmt frétt BBC eru tvær kvennanna á unglingsaldri, en þær eru allar af asískum uppruna og talið er að þær séu skyldar. Konurnar voru allar bundnar, en tveir hnífar fundust á vettvangi.

Samfélagið á svæðinu er sagt vera í áfalli yfir því hve hrottaleg morðin voru, en konurnar höfðu meðal annars verið skornar á háls.

Ein kenning lögreglu er sú að konurnar hafi lent í deilum við smyglara, en ekki virðist hafa verið um rán að ræða því ein kvennanna bar gullskartgripi þegar hún fannst.

Samkvæmt upplýsingum sem hafðar eru eftir grísku lögreglunni voru um 8.400 flóttamenn og hælisleitendur handsamaðir á Evros-svæðinu fyrri hluta þessa árs. Dregið hefur verulega úr flæði flóttafólks inn í landið síðustu þrjú árin, eftir að samkomulag var undirritað á milli Evrópusambandsins og Tyrkja um að senda flóttafólk aftur til Tyrklands sem ekki sækir um hæli í Grikkland eða fær neitun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert