Upptökur sanni að Khashoggi var myrtur

Mótmælendur fyrir framan sendiskrifstofu Sáda í Istanbúl á dögunum. Tyrkir …
Mótmælendur fyrir framan sendiskrifstofu Sáda í Istanbúl á dögunum. Tyrkir segjast hafa upptökur sem sanni að blaðamaðurinn var myrtur þar. AFP

Tyrkneskir embættismenn segjast hafa sannanir fyrir því að sádi-arabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi hafi verið myrtur á sendiskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í upphafi mánaðar.

Samkvæmt heimildarmanni BBC, sem þekkir til rannsóknar tyrknesku leynilögreglunnar á hvarfi Khashoggi, hafa Tyrkir bæði hljóð- og myndbandupptökur sem sýna fram á að Khashoggi var ráðinn af dögum á sendiskrifstofu Sáda.

Washington Post greinir sömuleiðis frá því í dag að tyrkneskir ráðamenn hafi látið bandaríska embættismenn vita af tilvist þessara sönnunargagna.

Upptökurnar eru sagðar sýna að hópur Sádi-Araba hafi hneppt Khashoggi í varðhald er hann gekk inn á sendiskrifstofuna 2. október, en þangað var hann kominn til þess að verða sér út um nauðsynleg gögn til þess að geta kvænst tyrkneskri unnustu sinni.

Því næst var hann yfirheyrður, pyntaður og drepinn, áður en lík hans var brytjað í sundur, samkvæmt heimildarmanni Washington Post, sem talar í skjóli nafnleyndar.

Frá sendiskrifstofu Sáda í Istanbúl, þar sem talið er að …
Frá sendiskrifstofu Sáda í Istanbúl, þar sem talið er að Khashoggi hafi verið myrtur og síðan brytjaður í sundur 2. október síðastliðinn. AFP

Tyrkir eru sagðir tregir til þess að láta upptökurnar af hendi, þar sem þær varpi ljósi á það með hvaða hætti tyrkneska leyniþjónustan njósni um erlenda aðila á tyrkneskri grundu. Washington Post fullyrðir að vaxandi trú sé á því innan bandarísku stjórnsýslunnar að Sádi-Arabar hafi myrt blaðamanninn.

Hvarf Khashoggi hefur vakið ugg á meðal sádi-arabískra blaðmanna og aktivista, bæði í Sádi-Arabíu og víðar í Mið-Austurlöndum. Þeir spyrja sig að því hvað gæti komið fyrir þá, fyrst þetta virðist hafa getað komið fyrir Khashoggi, sem var vel þekktur, með lögheimili í Bandaríkjunum og dálkahöfundur á Washington Post.

Frétt BBC

Frétt Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert