Reknar úr skóla fyrir að falla á óléttuprófi

Konur á fiskimarkaði í Tansaníu. Um fjórðungur allra stúlkna á …
Konur á fiskimarkaði í Tansaníu. Um fjórðungur allra stúlkna á aldrinum 15-19 hefur ýmist átt barn eða orðið óléttur. Mynd úr safni. AFP

Tvisvar á ári er stúlkum í Arusha gagnfræðiskólanum í Tansaníu fylgt inn á klósett skólans og gert að pissa í krukku. Fyrir utan klósettklefann bíður kennari til að tryggja að þungunarprófum sé ekki skipt út.

Þær 800 stúlkur sem eru við nám í skólanum er skyldaðar til að taka þungunarpróf tvisvar á ári og reynist prófið jákvætt eru þær samstundis reknar úr skólanum.

CNN fréttastofan segir slík próf hafa verið framkvæmd í skólanum sl. þrjú ár og að svo sé einnig í nokkrum öðrum skólum í Tansaníu, þar sem siðferðisgrein í menntunarlöggjöf er notuð til að veita skólum heimild til að reka nemendur verði þeir óléttir. Þessi háttur var upphaflega hafður á á sjötta áratug síðustu aldar, en lagagreininni hefur verið beitt í æ ríkari mæli frá því að John Pombe Magufuli tók við embætti forseta Tansaníu árið 2015.

„Hún hefur valið þetta líf“

Í fyrra gekk Magufuli raunar skrefinu lengri og tilkynnti að óléttum nemendum yrði ekki leyft að snúa aftur í skóla eftir fæðingu. „Í minni forsetatíð verður engri óléttri stúlku leyft að snúa aftur í skóla. Hún hefur valið þetta líf. Látum hana sinna barninu,“ sagði Magafuli á fundi með stuðningsmönnum.

Elifuraha, sem er 19 ára, á erfitt með að tala um skömmina sem hún upplifði vegna þungunarskoðunar. „Allri nemendur voru kallaðir inn í herbergi og kvenkyns kennarar tóku að skoða okkur ... þeir þreifuðu á maga okkar,“ rifjar Elifuraha upp. Hún var við nám í Moshono gagnfræðiskólanum og vissi að hún væri ólétt. Eftir að hún viðurkenndi að hún ætti von á barni var henni samstundis vísað úr skóla.

John Pombe Magufuli, forseti Tansaníu, segir engri óléttri stúlku leyft …
John Pombe Magufuli, forseti Tansaníu, segir engri óléttri stúlku leyft að snúa aftur í skóla í sinni forsetatíð. AFP

CNN segir enga tölfræði vera til yfir það hversu margar óléttar stúlkur hafa verið reknar úr skóla í Tansaníu. Alþjóðlegu samtökin Center for Reproductive Rights, sem beita sér fyrir rétti kvenna til að ráða yfir eigin líkama, áætlaði hins vegar árið 2013  að árlega séu um 8.000 stúlkur í Tansaníu reknar úr skóla eða hætti námi vegna þungunar.

Þungunarprófin verndi nemendur

Anna Ulimboka, hjúkrunarkonan sem hefur yfirumsjón með þungunarprófunum í Arusha gagnfræðiskólanum, telur prófin af hinu góða. Margir nemendanna eru henni raunar sammála og töldu nokkrar stúlknanna sem CNN ræddi við að prófin væru til þess að vernda þær.

„Áður en það var byrjað að vera með prófin urðu margar stelpur óléttar á meðan þær voru í skóla. Eftir að farið var að gera prófanir fyrir og eftir skólafrí þá eru þær farnar að forðast að vera með drengjum,“ sagði Ulimboka.

„[Ólétt stúlka] setur öðrum nemendum slæmt fordæmi,“ bætti hún við. „Með því læra aðrir að jafnvel þó að þeir klúðri málum fái þeir samt að koma aftur skólann.“

Reknar án tillits til aðstæðna

Mannréttindalögfræðingurinn Shilinde Ngalula, hjá mannréttindamiðstöð Tansaníu segir það brjóta í bága við mannréttindi stúlknanna að meina þeim um menntun.

„Vegna tilskipunar forsetans eru þær reknar ... án þess að spáð sé í hvernig þær urðu óléttar,“ sagði Ngalula. „Það eru mörg dæmi um nauðgun ...stúlka getur orðið ólétt eftir nauðgun, eftir að ráðist hefur verið á hana eða hún neydd í hjónaband og það er ekki henni að kenna.“

CNN segir flest mannréttindasamtök í Tansaníu hafa orðið að hætta baráttu sinni fyrir málinu, en í júlí í fyrra var Halima Mdee, einn þingmanna stjórnarandstöðunnar, handtekinn fyrir að fordæma bannið.

Tansanía er ekki eina ríkið sem hindrar skólagöngu óléttra stúlkna, en í Sierra Leone og Miðbaugs-Gíneu er þungun einnig gild ástæða til að banna skólavist.  

Bannið brýtur þó í bága við mannréttindasáttmála sem löndin þrjú hafa undirritað og hafa Sameinuðu þjóðirnar ítrekað þrýst á ríkin að afnema bannið.

„Latar“ konur nota getnaðarvarnir

Herferð stjórnar Magufulis nær þó ekki eingöngu til þungunar innan skólakerfisins því á fundi með stuðningsmönnum í september hvatti forsetinn konur til að hætta að nota getnaðarvarnir svo íbúum Tansaníu fjölgaði hraðar. Sagði hann þær konur sem nýttu getnaðarvarnir vera „latar“.

Nokkrum vikum síðar bönnuðu stjórnvöld heilsugæslustöðvum sem bjóða upp á fóstureyðingar að auglýsa í sjónvarpi og útvarpi.

Þar sem kynfræðsla er ekki hluti af námsskránni í Tansaníu vita ekki allar stúlkur að kynlíf geti leitt til þess að þær verði óléttar.

Um fjórðungur allra stúlkna á aldrinum 15-19 hefur ýmist átt barn eða orðið óléttur og 375 kvenna á aldrinum 20-24 voru látnar gifta sig fyrir 18 ára aldur samkvæmt tölfræði frá 2010. Þá var fjórðungur allra stúlkna sem voru giftar fyrir 19 ára aldur í hjónabandi með mönnum sem voru meira en 10 árum eldri en þær.

Þeir drengir  og karlar sem gera skólastúlku ólétta eiga yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsisdóm. Segja fjölmiðlar í Tansaníu og mannréttindasamtök dæmi um að óléttar stúlkur hafi verið hnepptar í fangelsi fyrir að neita að gefa upp nafn barnsföðurins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert