Sádar sýni engan samstarfsvilja

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands. AFP

Utanríkisráðherra Tyrklands, Mevlut Cavusoglu, sakar Sádi-Araba um að sýna ekki samstarfsvilja varðandi rannsókn tyrkneskra yfirvalda á hvarfi sádiarabíska blaðamannsins Jamal Khashoggi. Hann óskar eftir því að yfirvöld í Sádi-Arabíu veiti Tyrkjum aðgang að sendiskrifstofu Sáda í Istanbúl.

„Við höfum ekki séð samstarf sem tryggir að rannsóknin gangi snurðulaust fyrir sig og að ljósi verði varpað á allt. Það er það við viljum,“ sagði Cavusoglu við tyrkneska ríkismiðilinn Anadolu í dag.

Stjórnvöld í Ankara hafa sagt að Sádar hafi fallist á að tyrkneskir rannsakendur fái aðgang að sendiskrifstofunni þar sem síðast sást til Khashoggi, en að enn hafi ekki náðst sátt um það hvaða skilyrði Tyrkir þurfi að gangast undir til þess að fá aðgang.

Cavusoglu er í opinberri heimsókn í Bretlandi og sagði við blaðamenn þar að það væri nauðsynlegt að tyrkneskir saksóknarar og sérfræðingar fengju aðgang að sendiskrifstofunni.

„Hvar hvarf hann? Þarna, á sendiskrifstofunni,“ sagði utanríkisráðherrann og bætti við að áfram yrði rætti við Sáda um aðgang rannsakenda að skrifstofunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert