Tók hann upp eigin dauðdaga?

Á þessu myndbandi úr öryggismyndavél sést blaðamaðurinn Jamal Khashoggi koma …
Á þessu myndbandi úr öryggismyndavél sést blaðamaðurinn Jamal Khashoggi koma til ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl. Þaðan sneri hann aldrei. AFP

Sádiarabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi, sem talið er að hafi verið myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Tyrklandi, gæti hafa tekið upp eigin dauðdaga. Þetta kemur fram í frétt í tyrknesku dagblaði í morgun. CNN fjallar um málið.

Samkvæmt heimildum blaðsins kveikti Khashoggi á Apple-úri sínu áður en hann gekk inn í ræðismannsskrifstofuna í Istanbúl 2. október. 

Á meðan verið var að „yfirheyra hann, pynta og drepa var hljóðupptaka í gangi sem send var bæði í síma hans og iCloud,“ segir í frétt dagblaðsins Sabah í morgun. Einnig kemur fram að á upptökunni megi heyra samtal mannanna sem drápu blaðamanninn.

Að því er fram kemur í tyrknesku fréttinni fann lögreglan, sem rannsakar hvarf hans, upptökuna á síma hans sem hann hafði skilið eftir hjá unnustu sinni áður en hann fór inn á ræðismannsskrifstofuna til að sækja gögn svo hann gæti kvænst í Tyrklandi.

Þá segir blaðið að meintir árásarmenn Khashoggi hafi gert ítrekaðar tilraunir til að komast inn í gögn úrsins og m.a. stimplað inn nokkur lykilorð en án árangurs. Þá hafi þeir að lokum notað fingrafar blaðamannsins til að taka úrið úr lás. Þannig hafi þeim tekist að eyða einhverjum skrám.

Innanríkisráðherra Sádi-Arabíu harðneitar því að þarlend stjórnvöld hafi átt nokkurn þátt í hvarfi og meintu morði blaðamannsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert