Innflytjendur óvelkomnir

Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, segir að flytja verði fólkið í …
Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, segir að flytja verði fólkið í flóttamannamiðstöðvar í næstu viku. AFP

Innanríkisráðherra Ítalíu segir að flytja eigi alla innflytjendur og alla hælisleitendur úr bænum Riace á suðurhluta Ítalíu, en bærinn er þekktur fyrir að taka vel á móti fólkinu. Það verður nú flutt í flóttamannamiðstöðvar á Ítalíu í næstu viku. 

Ákvörðunin var kynnt nokkrum dögum eftir að Domenico Lucano, bæjarstjóri Riace, var sakaður um að skipuleggja hagsmunahjónabönd til að fólk geti öðlast dval­ar­leyfi í land­inu.

Lucano var hnepptur í stofufangelsi vegna málsins og þá hefur mikil og heit umræða farið fram í landinu um aðlögun innflytjenda og hælisleitenda. 

Núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir og boðað hertar aðgerðir í málefnum flóttafólks. 

Domenico Lucano, bæjarstjóri Riace, er nú í stofufangelsi.
Domenico Lucano, bæjarstjóri Riace, er nú í stofufangelsi. AFP

Lucano, sem er betur þekktur sem Mimmo, vakti athygli á heimsvísu þegar hann stóð fyrir óvenjulegu verkefni sem gekk út að taka vel á móti innflytjendum og flóttafólki í bænum í Kalabríu-héraði. Hann bauð þeim m.a. að búa í húsum sem aðrir höfðu yfirgefið auk þess sem hann bauð þeim þjálfun og atvinnutækifæri. Hann gerði þetta í þeirri von að hleypa lífi í hagkerfið og koma hjólum atvinnulífsins af stað. 

Hann hóf áætlunina árið 1998 og síðan þá hafa mörg hundruð innflytjendur flust til bæjarins þar sem íbúafjöldinn telur aðeins um 2.000 manns.

Margir hafa hrósað honum fyrir framtakið og árið 2016 valdi tímaritið Fortune hann sem einn af merkustu leiðtogum heims. 

Eftir að Lucano var handtekinn fyrr í þessum mánuði brutust út mikil mótmæli og heitar umræður á landsvísu um verkefnið. 

Mattei Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, og hægriflokkur hans, Bandalagið, segir að handtaka bæjarstjórans sýni fram á að stjórnvöld hafi „lýst yfir stríði gegn innflytjendaverkefnum“.

Salvini hefur unnið að því að brjóta niður og draga úr fjölgun innflytjenda og hælisleitenda til landsins. Hann hefur bæði verið mærður fyrir það og harðlega gagnrýndur frá því ný samsteypustjórn komst til valda á Ítalíu í júní á þessu ári. 

Lucano segir að lögmenn hans vinni nú að því að fá hann lausan úr stofufangelsinu. Hann fullyrðir að ríkisstjórn landsins vilji „gera út af við okkur“.

„Hvernig dettur mönnum í hug að eyðileggja Riace-módelið, sem óteljandi einstaklingar, stjórnmálamenn, fræðimenn og listamenn hafa lýst sem stórmerkilegri upplifun,“ sagði Lucano í samtali við AFP-fréttstofuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert