Refsingum verði mætt með stærri aðgerðum

Öryggisvörður sést hér ganga inn á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl …
Öryggisvörður sést hér ganga inn á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl þar sem blaðamaðurinn sást seinast á lífi. AFP

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu segja að þau muni bregðast hvers konar efnahagslegum og pólitískum hótunum vegna hvarfs blaðamannsins Jamal Khashoggi sem hvarf sporlaust í byrjun mánaðarins. Verði þeim refsað vegna málsins munu þau svara með umfangsmeiri aðgerðum. 

Þetta kemur fram á vef BBC, þar sem vísað er í heimildarmann innan ríkisstjórnar landsins. 

Khashoggi hvarf sporlaust 2. október eftir að hafa heimsótt ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi. Khashoggi var mjög gagnrýninn á yfirvöld í Sádi-Arabíu. 

Trump Bandaríkjaforseti hefur látið hafa eftir sér að hann muni refsa Sádi-Aröbum beri þeir ábyrgð á dauða hans. 

Trump hefur hótað aðgerðum komi það í ljós að Sádar …
Trump hefur hótað aðgerðum komi það í ljós að Sádar beri ábyrgð á dauða blaðamannsins. AFP

Tyrknesk yfirvöld telja að Khashoggi hafi verið myrtur á ræðismannsskrifstofunni og að útsendarar Sádi-Araba beri ábyrgð á dauða hans. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu vísa þessu alfarið á bug.

Fram hefur komið, að bæði Bretar og Bandaríkjamenn séu nú að íhuga að sniðganga stóra fjármálaráðstefnu sem á að fara fram í Sádi-Arabíu síðar í þessum mánuði. 

Sádi-arabíska ríkisfréttastofan SPA hefur eftir heimildarmanni sínum að ríkið hafni öllum ásökunum alfarið. Einnig að ríkið verði beitt einhverskonar pólitískum eða efnhagslegum refsiaðgerðum.

„Konungsríkið ítrekar að það mun bregðast við hvers konar aðgerðum með stærri aðgerðum. Hagkerfi Sádi-Arabíu leikur stórt og mikilvægt hlutverk í efnhagslífi heimsins,“ segir hann. 

Stjórnvöld í landinu hafa mætt miklum þrýstingi vegna hvarfsins. 

Jamal Khashoggi.
Jamal Khashoggi. AFP

Trump hefur sagt að Sádi-Arabía muni þurfa að þola harðar refsingar beri þeir ábyrgð á dauða blaðamannsins. Hann sagði að hann yrði mjög reiður og ósáttur ef það væri raunin. Hann útilokaði hins vegar að samningar um sölu á hergögnum til landsins yrðu stöðvaðir.

„Ég held að við værum að refsa okkur sjálf ef við gerðum það,“ sagði forsetinn. „Ef þeir kaupa ekki af okkur, þá munu þeir kaupa af Rússum eða Kína.“

Fyrirhuguð eiginkona hans beið fyrir utan

Jamal Khashoggi hugðist ganga frá pappírum vegna fyrirhugaðs hjónabands þegar hann gekk inn í ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl upp úr hádegi þriðjudaginn 2. október. Fyrirhuguð eiginkona hans, Hatice Cengiz, var með í för og beið fyrir utan.

Khashoggi hafði gagnrýnt stjórnvöld í Sádi-Arabíu og höfðu viðhorf hans birst í dálkum í bandaríska dagblaðinu Washington Post. Hann flúði Sádi-Arabíu í september og bjó í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum þar sem hann hafði sótt um ríkisfang. Khashoggi hafði talað um að sennilega gæti hann aldrei snúið aftur til Sádi-Arabíu, fæðingarlands síns.

Cengiz skrifaði í grein í Washington Post á þriðjudag þar sem hún skoraði á bandarísk stjórnvöld að grípa til aðgerða vegna hvarfs Khashoggis. Þótt hann hefði vitað að skoðanir sínar hefðu reitt ákveðna menn til reiði hefði hann farið inn í ræðismannsskrifstofuna „án nokkurs vafa um að þar væri hann öruggur“. Þegar hún hafði beðið fyrir utan sendiráðið í þrjár klukkustundir gripu hana hins vegar „ótti og áhyggjur“.

Mynd úr eftiriltsmyndavél sýnir Jamal Khashoggi (t.h.) ganga inn á …
Mynd úr eftiriltsmyndavél sýnir Jamal Khashoggi (t.h.) ganga inn á skrifstofuna 2. október sl. AFP

Daginn eftir að Khashoggi hvarf var greint frá málinu í Washington Post og sagt að ekki hefði sést til hans frá því hann fór inn í skrifstofuna, ógerningur væri að ná í hann og ástæða væri til að hafa af því áhyggjur.

Tyrknesk stjórnvöld sögðust telja að hann væri enn staddur á ræðismannsskrifstofunni og kvöddu sendiherra Sádi-Arabíu á fund í tyrkneska utanríkisráðuneytinu.

15 manna sveit hefði myrt hann

Á þriðja degi brugðust Sádar loks við og lýstu yfir því að Khashoggi hefði horfið „eftir að hann yfirgaf ræðismannsbygginguna“. Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, sagði daginn eftir í viðtali við fréttaveituna Bloomberg að Khashoggi væri ekki inni í ræðismannsskrifstofunni, en Sádar væru reiðubúnir að víkja reglum um friðhelgi til hliðar og tyrkneskum stjórnvöldum væri velkomið að gera þar húsleit.

Salman hefur komið á ýmsum umbótum í Sádi-Arabíu, en líður enga gagnrýni og hafa 15 blaðamenn verið handteknir í landinu undanfarið ár. Talið er að allt að þrjátíu blaðamenn séu í haldi í landinu um þessar mundir.

Laugardaginn 6. október birti franska fréttaveitan AFP frétt þar sem haft var eftir heimildarmanni úr tyrkneska stjórnkerfinu að tyrkneska lögreglan teldi að Khashoggi hefði verið myrtur í ræðismannsskrifstofunni. „Lögreglan telur samkvæmt fyrstu niðurstöðum að 15 manna sveit, sem sérstaklega var send til Istanbúl og fór sama dag, hafi myrt blaðamanninn,“ sagði heimildamaðurinn.

Tyrkneskir fjölmiðlar greindu í kjölfarið frá því tyrknesk yfirvöld teldu að mögulegt væri að Khashoggi hefði verið rænt og hann fluttur til Sádi-Arabíu. Einnig kom fram að Tyrkir héldu að sveitin, sem send var til höfuðs Khashoggi, hefði haft upptökur öryggismyndavéla úr ræðismannsskrifstofunni með sér.

Eins og í Pulp Fiction

Er leið á vikuna kom meira fram. Á þriðjudag var haft eftir háttsettum tyrkneskum embættismönnum að fyrirskipunin um að ráða Khashoggi af dögum hefði komið frá æðstu ráðamönnum við hirðina í Sádi-Arabíu. Útsendararnir hefðu komið með tveimur einkaflugvélum og farið samdægurs. Allir væru þeir á mála hjá stjórnvöldum í Sádi-Arabíu. Þeir hefðu myrt Khashoggi innan tveggja klukkustunda frá því að hann gekk inn í ræðismannsskrifstofuna. Þeir hefðu síðan notað kjötsög, sem þeir hefðu haft meðferðis, til að hluta líkið í sundur. „Þetta var eins og Pulp Fiction,“ sagði einn embættismaður og vísaði til myndar Quentins Tarantinos.

Einn heimildarmaður sagði þó að enn væri talið mögulegt að Khashoggi hefði verið rænt. Eftir öðrum var haft að tyrkneska leyniþjónustan hefði komist yfir myndskeið, sem sýndi morðið á Khashoggi.

Fáni Sádi-Arabíu sést hér blakta við hún við ræðismannsskrifstofuna.
Fáni Sádi-Arabíu sést hér blakta við hún við ræðismannsskrifstofuna. AFP

Á fimmtudag birtist frétt í Washington Post um að Mohammed bin Salman hefði fyrirskipað aðgerð um að „lokka“ Khashoggi aftur heim. Sagði blaðið að þetta ráðabrugg kæmi fram í samskiptum, sem bandarískar leyniþjónustur hefðu hlerað. Bandarísk stjórnvöld segja þó að þau hafi engan pata haft af því fyrir fram að til stæði að láta til skarar skríða gegn honum.

Sádar halda því enn fram að Khashoggi hafi yfirgefið ræðismannsskrifstofuna á lífi, en segja að öryggismyndavélar hafi verið í lamasessi þennan dag. Leyfi til að leita á skrifstofunni hefur verið formlega veitt. Sú leit hefur enn ekki farið fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert