Rúta flóttafólks steyptist ofan í skurð

Slysið varð nærri Izmir á vesturströnd Tyrklands.
Slysið varð nærri Izmir á vesturströnd Tyrklands. AFP

22 létust í bílslysi nærri Izmir í Tyrklandi í dag. Á meðal látinna voru nokkur börn. Fólkið er talið hafa verið á leiðinni til Grikklands, en hópurinn samanstóð af farand- og flóttafólki. Þrettán til viðbótar slösuðust.

Þjóðerni fólksins liggur ekki fyrir, en á meðal látinna voru tvö ungbörn, tvö börn og ólétt kona.

Rútan sem þau voru í fór út af veginum og hrapaði úr talsverðri hæð niður í manngerðan skurð. Höggið var þungt og rútan lenti á þakinu, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Bílstjórinn var Tyrki á fertugsaldri. Hann var einn þeirra sem lifðu af slysið. Hann sagði lögreglumönnum að hann hefði þurft að sveigja frá, þar sem annar bíll hefði stefnt framan á rútuna. Maðurinn hafði ekki tilskilin réttindi til að aka ökutæki af þessari stærð og verður sennilega handtekinn þegar hann kemur af spítala.

Rútan hafði verið á leigu í fjóra daga. Í farangursrými hennar fundust nokkrir upplásanlegir björgunarbátar, sem talið er benda til þess að fólkið hafi ætlað sér að fara sjóleiðina til Grikklands.

Rútan hafnaði ofan í skurði með skelfilegum afleiðingum.
Rútan hafnaði ofan í skurði með skelfilegum afleiðingum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert