Fá leitarheimild á ræðismannsskrifstofunni

Yfirvöld á Tyrklandi hafa fengið heimild til að leita á …
Yfirvöld á Tyrklandi hafa fengið heimild til að leita á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í dag vegna hvarfs Khashogg­is. AFP

Tyrknesk yfirvöld hafa fengið heimild til að leita á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í dag vegna hvarfs sádi-ar­ab­íska rann­sókn­ar­blaðamanns­ins Jamal Khashogg­is, sem tyrk­nesk yf­ir­völd telja hafa verið myrt­an. Frá þessu er greint í tyrkneskum fjölmiðlum sem hafa heimildir sínar frá ónefndum embættismönnum.

Khashoggi, sem var gagn­rýn­inn á stjórn­völd í heimalandi sínu, kom á sádi-ar­ab­ísku ræðismanns­skrif­stof­una í Tyrklandi 2. októ­ber til þess að verða sér úti um op­in­bera papp­íra þannig að hann gæti gengið að eiga tyrk­neska unn­ustu sína. Ekk­ert hef­ur spurst til hans síðan.

Salm­an Sáda­kon­ung­ur hefur farið fram á að rannsókn á hvarfi Khashoggis verði framkvæmd en ráðamenn í Sádi-Arabíu hafa vísað þeim ásökunum á bug að blaðamaðurinn hafi verið myrtur.

Mál Khashoggis hefur valdið diplómatískum titringi og hefur óháðrar rannsóknar verið krafist frá ríkjum víða á Vesturlöndum. Einnig hefur verið gefið í skyn að uppi sé áform um refsiaðgerðir gegn Sádi-Arabíu.

Teymið sem mun framkvæma leitina á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl verður skipað Tyrkjum og Sádum og talið er að leitin fari fram síðdegis eða í kvöld. Ekki hefur verið greint frá frekara fyrirkomulagi leitarinnar.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert