Leita Khashoggi í skógi

Tyrkneska lögreglan, sem rannsakar hvort sádiarabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi hafi verið myrtur, leitar hans nú í skógi skammt frá Istanbul. Heimildir BBC herma að líki hans hafi jafnvel verið komið þar fyrir eða á ræktuðu svæði þar skammt frá.

Khashoggi hvarf eftir komuna í ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbul 2. október og telja tyrknesk yfirvöld að hann hafi verið myrtur. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu neita að vita hvað varð um blaðamanninn.

Sýni voru tekin á ræðismannsskrifstofunni og íbúð ræðismannsins þegar þar var leitað fyrr í vikunni. Er verið að bera sýnin saman við erfðaefni Khashoggi.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, neitar því að hafa hlustað á upptöku sem tyrknesk yfirvöld segja að sanni að Khashoggi hafi verið myrtur. „Ég hef ekki hlustað á upptöku, ég hef ekki séð handritið,“ segir hann. Hann gagnrýnir ABC News harðlega fyrir að greina frá því í fréttum að hann hafi fengið aðgang að upptökunni. Fréttastofan hafði þetta eftir ónafngreindum tyrkneskum embættismanni. 

Tyrknesk yfirvöld höfðu áður greint frá því að þau hefðu undir höndum bæði hljóð- og myndupptökur af morðinu á Khashoggi en upptökurnar hafa ekki verið birtar opinberlega.

Hvarf blaðamannsins hefur haft mikil áhrif á samskipti stjórnvalda í Ríad og vestrænna bandamanna þeirra. Hafa bandarískir, franskir og breskir ráðherrar ákveðið að sitja heima þegar fjárfestingarsjóður konungdæmisins heldur fjárfestingarráðstefnu í næstu viku. 

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sagði í gær að hann teldi nú að Jamal Khashoggi væri látinn og varaði við mjög hörðum viðbrögðum komi í ljós að yfirvöld í Sádi-Arabíu ber þar ábyrgð. Trump segir að þannig líti þetta út fyrir honum núna og það syrgi hann.

Spurður um möguleg viðbrögð bandarískra yfirvalda segir hann að þau verði mjög alvarleg. Þetta sé mjög slæmt mál.

Khashoggi, sem áður var innanbúðarmaður hjá stjórnvöldum í Sádi-Arabíu, hafði breytt um stefnu og var mjög harður í gagnrýni sinni á krónprinsinn, Mohammed bin Salman, sem er lykilmaðurinn í samskiptum konungdæmisins og ríkisstjórnar Trump.

Fjögur þekkt baráttusamtök fyrir mannréttindum og fjölmiðlafrelsi hvöttu Tyrki til þess að kerfjast rannsóknar Sameinuðu þjóðanna á málinu. 

Samtökin Committee to Protect Journalists, Human Rights Watch, Amnesty International og Reporters Without Borders segja að slík rannsókn sem yrði skipulögð af framkvæmdastjóra SÞ, Antonio Guterres, myndi væntanlega komast til botns í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert