Ætluðu að stofna búðir fyrir öfgamenn

Frá Mósambík. Mynd úr safni.
Frá Mósambík. Mynd úr safni. AFP

Lögregla í Tansaníu hefur handtekið 104 einstaklinga sem grunaðir eru um að hafa ætlað að koma á fót búðum fyrir rótæka uppreisnarmenn í nágrannaríkinu Mósambík, en tugir manna hafa farist í árásum íslamskra öfgamanna í landinu undanfarið ár.

Reuters-fréttastofan segir 40 árásir hafa verið gerðar í Cabo Delgado-héraðinu í Mósambík frá því í október í fyrra og hafa þær kostar rúmlega 100 manns lífið. Héraðið er nálægt landamærum Tansaníu, en svæðið er ríkt af gastegundum.

Lögreglustjórinn Simon Sirro sagði á fundi með fréttamönnum í gær að öryggislögregla hefði fyrir nokkrum mánuðum hafið aðgerð gegn „glæpamönnum“ í austur- og suðurhlutum landsins. Nokkrum þeirra hefði hins vegar tekist að flýja.

„Meðan á aðgerðunum stóð voru sumir glæpamannanna handteknir og sumir [...] létust og nokkrir flúðu. Þeir sem flúðu eru þeir sem reyndi að komast yfir landamærin til Mósambík til að setja á fót búðir þar,“ sagði Sirro.

Kvað hann mennina hafa játað, að loknum yfirheyrslum, að þeir hefðu ætlað sér að ganga til liðs við öfgamenn í Mósambík.

Fyrr í þessum mánuði var réttað yfir 189 manns í Mósambík, m.a. nokkrum útlendingum, vegna ásakana um að taka þátt í árásum íslamskra öfgamanna á Cabo Delgado.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert