„Verða að svara fyrir gjörðir sínar“

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Angela Merkel Þýskalandskanslari segir að þeir sem bera ábyrgð á dauða blaðamannsins Jamals Khasoggi verði gerðir ábyrgir. Í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í dag ásamt Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, kallar hún eftir auknu gagnsæi sádi-arabískra yfirvalda vegna málsins.

„Við búumst við gagnsæi frá yfirvöldum í Sádí-Arabíu vegna kringumstæðna dauða Khasoggis,“ segir í yfirlýsingunni. „Þær skýrslur sem til eru um hvað gerðist á ræðismannsskrifstofunni í Istanbúl eru ófullnægjandi.“

Eftir að hafa neitað staðfastlega að hafa tengst dauða blaðamannsins sem skrifaði í Washington Post viðurkenndu sádísk yfirvöld loks að Khasoggi hefði látið lífið í slagsmálum. Átján Sádar hafa verið handteknir grunaðir um að tengjast andláti hans. Tveimur ráðgjöfum Mohammed bin Salman krónprins og þremur leyniþjónustumönnum hefur verið sagt upp störfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert