Æfa sig fyrir sprengjuárásir

Börnin grúfa sig niður í borðið með hendur fyrir ofan …
Börnin grúfa sig niður í borðið með hendur fyrir ofan höfuð. Þau eru að taka þátt í öryggisæfingu fari svo að skólinn verði fyrir árás. AFP

Tugir barna eru í hnipri í kjallaranum og verja höfuð sín með höndunum. Þau eru að æfa hvað þau eigi að gera fari svo að skóli þeirra verði fyrir árás í átökunum sem staðið hafa yfir í austurhluta Úkraínu frá því Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014.

Rúmlega 10.000 manns hafa farist í átökunum og sprengjubyrgi og æfingar eins og þessi eru hluti daglegs lífs hjá börnum í þeim hundruðum skóla sem eru í nágrenni víglínunnar.

Í skóla númer átta í þorpinu Sartana, sem er í um 10 km fjarlægð frá víglínunni, hringir viðvörunarbjalla þegar börnin standa upp og fylgja bláu örvunum niður í sprengjubyrgið.

„Við erum með sérstök tákn. Þrjár stuttar hringingar tákna eld, ein löng hringing þýðir sprengjuárás,“ segir Olena Lyskonog, 14 ára nemi í skólanum, í samtali við AFP-fréttastofuna. „Það eru oft svona æfingar, þannig að við fyllumst ekki ótta þegar raunveruleg sprengjuárás hefst.“

Einn drengjanna í skóla átta lýsir hér mismunandi vopnagerðum, en …
Einn drengjanna í skóla átta lýsir hér mismunandi vopnagerðum, en fræðsla um hvernig fást eigi við jarðsprengjur er hluti af náminu. AFP

Hver bekkur með eigin neðanjarðarbyrgi

Æfingar á borð við þessa eru framkvæmdar mánaðarlega og hver bekkur er með sitt eigið neðanjarðarbyrgi sem er útbúið neyðarbirgðum.

Úrkaínsk stjórnvöld og vestrænir bandamenn þeirra saka rússnesk yfirvöld um að sjá uppreisnarmönnum fyrir vopnum og fyrir að senda rússneskar hersveitir yfir landamærin til að taka þátt í átökunum. Rússnesk stjórnvöld harðneita þessum ásökunum þrátt fyrir að vísbendingum um hið gagnstæða fari fjölgandi.

Dregið hefur úr átökum á svæðinu í kjölfar friðarviðræðna. Enn kemur þó til átaka og íbúum bæja eins og Sartana starfar enn ógn af eldflaugum og sprengikúlum.

Donetsk-héraðið verður reglulega fyrir sprengjuárásum. Skólastjóri skóla átta, Lyudmyla Korona, fullyrðir engu að síður að kjallari skólans sé „öruggasti staðurinn í Sartana“.

Börnin eru á leið í neðanjarðarbyrgið og er hver bekkur …
Börnin eru á leið í neðanjarðarbyrgið og er hver bekkur með sitt herbergi. AFP

Stöðugt verið að sprengja í nágrenninu

Í október 2014 lenti flugskeyti á jarðarför með þeim afleiðingum að sjö manns fórust og 13 til viðbótar slösuðust.

Engar sprengjur hafa fallið á Sartana sl. tvö ár þökk sé friðarsamningunum, en því fer þó fjarri að lífið þar sé með eðlilegu móti. „Það er stöðugt verið að sprengja í nágrenninu. Við heyrum það bæði að degi og nóttu,“ segir Lyskonog.

Unicef, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, segir tæplega 750 skóla hafa ýmist verið eyðilagða eða skemmda í átökum undanfarinna ára. Um 200.000 börn á skólaaldri eru á svæðinu og stafar hætta af átökunum.

Í skóla númer átta eru reglulega kennslustundir í því hvernig eigi að fást við þær jarðsprengjur sem grafnar hafa verið í jörð í héraðinu frá því að átökin hófust. Á veggjum skólans eru líka að finna plaköt með fróðleik á borð við: „Ef þú sérð jarðsprengju, ekki snerta hana og ekki nálgast hana, heldur hringdu á slökkviliðið.“

Vadym Kononov, sem er nemandi í skólanum, var 12 ára þegar átökin hófust. Í upphafi hlífðu foreldrar hans honum fyrir því sem var að gerast með því að lýsa sprengjukúlunum sem „flugeldum“.

Í dag á Kononov auðvelt með að greina muninn milli ólíkra gerða jarðsprengja. Hann vonast þó til að þurfa aldrei að nota þá þekkingu sína. „Eftir svona þjálfun veit fólk hvernig jarðsprengjur líta út,“ segir hann.

Flugskeyti tók þakið af skólanum í Krasnogorivka degi eftir að …
Flugskeyti tók þakið af skólanum í Krasnogorivka degi eftir að skólaárinu lauk. AFP

Flugskeyti tók þakið af skólanum

Um 100 km norður af Sartana er bærinn Krasnogorivka, sem liggur beint yfir víglínuna. Tveir þriðju íbúar bæjarins hafa flúið og búið er að loka þremur af fimm skólum sem þar voru. Tveir þeirra eru illa skemmdir eftir sprengjuárásir og sá þriðji er án hita vegna skemmda tengdum átökunum.

Flugskeyti rifu þakið af skóla númer tvö í maí á síðasta ári, degi eftir að skólaárinu lauk. Skólinn hefur staðið auður síðan. 

„Ég vaknaði og sá að skólinn okkar var farinn,“ segir Ilya Dolgikh, fyrrverandi nemandi. Hann hafði sofið í gegnum árásina og segist hafa fundið fyrir svima þegar hann áttaði sig á því hvað hafði gerst.

Bæjaryfirvöld í Krasnogorivka hafa hafist handa við að endurreisa skólann en engin dagsetning er enn komin á hvenær hann verður nothæfur á ný.

Hljóðin frá átökunum berast líka til bæjarins flestar nætur. „Lífið heldur áfram,“ segir skólastjórinn Olena Mykhatko. „En það er ekki hægt að venjast þessu.“

Bæjaryfirvöld vinna nú að endurgerð skólans. Hljóð frá átökum berast …
Bæjaryfirvöld vinna nú að endurgerð skólans. Hljóð frá átökum berast þó til bæjarins flestar nætur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert