Trump „ekki sáttur“ við útskýringar Sáda

Donald Trump ræðir við blaðamenn við Hvíta húsið í Washington …
Donald Trump ræðir við blaðamenn við Hvíta húsið í Washington í dag. AFP

Frá því að blaðamaðurinn Jamal Khashoggi hvarf 2. október síðastliðinn eftir að hann gekk inn á ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbúl hafa yfirvöld í Sádi-Arabíu gefið ýmsar mismunandi skýringar á hvarfi hans.

Nýjasta vendingin er sú að í gær sagði utanríkisráðherra landsins að hann hefði verið myrtur í sendiráðinu, en ekki að yfirlagi æðstu ráðamanna landsins.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði við blaðamenn í Hvíta húsinu í dag að hann væri „ekki sáttur“ við útskýringar stjórnvalda í Ríad um það hvernig Khashoggi lét lífið. Hann sagði að það myndi liggja fyrir „mjög bráðlega“ hvort Sádar væru að segja satt eða ekki, spurður um það hvort hann tryði þeim útskýringum sem utanríkisráðherra Sáda gaf í viðtali við Fox News í gær.

Morðið sagt þaulskipulagt

Tyrknesk yfirvöld sögðu í dag að morðið á Khashoggi hefði verið þaulskipulagt og Recep Tayiip Erdogan forseti landsins hefur heitið því að „nakinn sannleikurinn“ muni koma fram á morgun, samkvæmt því sem AFP-fréttaveitan hefur eftir talsmönnum hans í dag.

Tyrkneska blaðið Yeni Safak segist hafa upplýsingar sem sýni að skrifstofa Mohammed bin Salmans, krónprins Sáda, hafi fengið fjögur símtöl frá ræðismannsskrifstofunni í Istanbúl eftir morðið á Khashoggi, sem renni stoðum undir það að hann hafi haft vitneskju um það sem átti sér stað.

Bandaríski miðillinn CNN birti í dag myndskeið úr öryggismyndavélum, sem sagt er sýna sádi-arabískan mann yfirgefa ræðismannsskrifstofuna í Istanbúl í fötum Khashoggi. Maðurinn er sagður hafa verið sendur út úr sendiráðinu í fötum sádiarabíska blaðamannsins til þess að villa um fyrir þeim sem síðar myndu rannsaka málið.

Upplýsingarnar hefur CNN frá tyrkneskum embættismanni, sem vinnur að rannsókn málsins. Þær virðast renna stoðum undir það morðið á Khashoggi hafi verið þaulskipulagt, eins og Tyrkir segja.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert