Á yfir höfði sér dauðadóm

Ríkissstjórn Malasíu styður afnám dauðarefsinga en það hefur ekki verið …
Ríkissstjórn Malasíu styður afnám dauðarefsinga en það hefur ekki verið samþykkt af þinginu. AFP

Bresk kona sem er grunuð um að hafa myrt eiginmann sinn á malasískri eyju verður áfram í gæsluvarðhaldi svo lögregla geti lokið rannsókn á morðinu.

Samantha Jones, sem er rúmlega fimmtug, var handtekin á fimmtudaginn eftir að eiginmaður hennar, John William Jones, sem var rúmlega sextugur, fannst látinn á heimili þeirra á eyjunni Langkawi. Hjónin höfðu búið á eyjunni í 11 ár en eyjan er mjög vinsæl meðal ferðamanna. 

Jones var leidd fyrir dómara í dag og staðfesti hann gæsluvarðhaldsbeiðni lögreglunnar. Er henni gert að sitja í gæsluvarðhaldi til 30. október. 

Að sögn lögreglustjórans á Langkawi er rannsókn málsins langt komin og á hann von á því að Jones verði ákærð fljótlega. Hún er sökuð um að hafa myrt eiginmann sinn eftir að þau höfðu rifist. Blóðugur hnífur fannst á gólfinu við hlið líksins en hann hafði verið stunginn í brjóstið. Hún hefur játað verknaðinn.

Samkvæmt lögum í Malasíu verður Jones væntanlega dæmd til dauða ef hún verður fundin sek um morð. Hins vegar hefur ríkisstjórn landsins lagt til afnám dauðarefsingar en það hefur ekki verið samþykkt af þingi landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert