Bréfsprengja send til Soros

George Soros.
George Soros. AFP

Lögreglan í New York eyddi bréfi sem sent var á milljarðamæringinn George Soros í gær. Grunur lék á að sprengja væri í bréfinu.

Samkvæmt frétt BBC var það starfsmaður Soros sem fann pakkann í pósthólfi kaupsýslumannsins og lét lögreglu vita. Atvikið, sem átti sér stað síðdegis í gær, er nú til rannsóknar hjá bandarísku alríkislögreglunni, FBI.

Soros, sem er 88 ára gamall, hefur verið skotmark gagnrýni hægrihópa undanfarið vegna stuðnings hans við frjálslynd viðhorf. Soros var ekki á heimili sínu í Bedford í Westchester- sýslu þegar pakkinn kom þangað.

Í sumar samþykkti ungverska þingið lög sem gera það refsivert að hjálpa ólöglegum innflytjendum að sækja um hæli í landinu. Lögin ganga undir nafninu „Stöðvum Soros“ og er þar vísað til bandarísk-ungverska auðjöfursins George Soros, sem hefur oft verið skotspónn Viktors Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands.

Orbán hefur sakað Soros um að standa á bak við innflutning fjölda manns til Evrópu í því skyni að grafa undan stöðugleika álfunnar. Lögunum sé ætlað að koma í veg fyrir skipulagningu ólöglegs innflutnings til landsins.

Fyrir ári setti Soros 18 millj­arða Banda­ríkja­dala í sam­tök sín Open Society Foundati­ons. Fyr­ir til­færsl­una voru eign­ir Soros metn­ar á 23 millj­arða dala og hef­ur Soros því látið af hendi um 80% af auðæfum sín­um. 

Starf­semi sam­tak­anna nær til fleiri en 100 þjóða og snýr að aðstoð við flótta­fólk, mennt­un og frjálsri fjöl­miðlun svo fátt sé nefnt. Þau voru stofnuð af Soros sjálf­um árið 1984 í sam­starfi við Ung­versku vís­inda­aka­demí­una en hann á ætt­ir sín­ar að rekja til Ung­verja­lands. 

Soros varð þekkt­ur sem „maður­inn sem kné­setti Eng­lands­banka“ eft­ir að hafa hagn­ast um 1 millj­arð Banda­ríkja­dala á skort­sölu á breska pund­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert