„Ógeðslegur alvörurasisti“

Cesar Sayoc hefur verið ákærður fyrir að hafa sent fjölda …
Cesar Sayoc hefur verið ákærður fyrir að hafa sent fjölda bréf­sprengja til þekktra ein­stak­linga sem gagn­rýnt hafa Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta. AFP

„Hann var alvörurasisti. Hann var ógeðslegur. Þú veist, svona maður sem er á móti öllu (e. anti-everything),“ segir Debra Gureghian, fyrrverandi yfirmaður Cesars Sayocs, mannsins sem er grunaður um að hafa sent bréfsprengjur á pólitíska andstæðinga Donalds Trumps síðustu daga.

„Hann spúði hatri. Hann var klárlega ekki í lagi í hausnum. En ég gat ekki rekið hann fyrir að kunna ekki við svart fólk eða homma eða transfólk, hann sinnti nefnilega starfi sínu,“ bætti Gureghian við í viðtali við BBC. „Hann var óbrigðull í starfi.“

Stacy Saccal, síðasti yfirmaður Sayocs, bar honum betur söguna þegar hún var tekin tali. „Hann var fyndinn og skemmtilegur. Alveg frábær náungi. Við töluðum aldrei um pólitík,“ segir hún. Jafnframt segir hún sig og aðra ekki hafa grunað hann um misjafnt athæfi inni í sendibíl sem hann ók, þau hafi haldið að þetta væri ísbíll.

Cesar Sayoc var handtekinn í gær fyrir að senda bréfsprengjurnar og hefur verið ákærður fyrir fimm alríkisglæpi. Ef málið endar fyrir dómi á hann yfir höfði sér 58 ára fangelsisdóm.

Viðtal BBC við yfirmennina:



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert