ESB styður bann við einnota plasti

Plasthnífapör, drykkjarör og ýmis konar aðrar einnota plastvörur eru meðal …
Plasthnífapör, drykkjarör og ýmis konar aðrar einnota plastvörur eru meðal þess sem ESB vill banna. AFP

Ríki Evrópusambandsins lýstu í dag yfir stuðningi við banni á notkun einnota plasts. AFP-fréttastofan segir að með samþykki aðildarríkjanna 28 sé ESB komið skrefinu nær að banna notkun á efninu, sem svo mikinn hluta mengunar sjávar megi rekja til.

Evrópuþingið samþykkti með miklum meirihluta fyrir nokkru að bann yrði lagt við einnota plastvörum eins og plaströrum, plasthnífapörum, eyrnapinnum.

Mun vinna við gerð lagafrumvarps um málið hefjast í næstu viku. Gert er ráð fyrir að texti þess verði samþykktur í desember á þessu ári og að lögin taki gildi árið 2021.

Leiðtogaráð Evrópusambandsins er hlynnt því að bann verði lagt við notkun á plastvörum í þeim tilfellum þar sem til eru vistvænni valkostir og að fyrirtæki verði látin sæta ábyrgð á hreinsun plastmengunarinnar.

Framkvæmdaráð ESB hefur lagt til að kostnaður við að hreinsa upp plastið eigi að falla á plastframleiðendur, en leiðtogaráðið vill að þau fyrirtæki sem flytja inn plastvörur og selja þurfi einnig að greiða sinn skerf.

Hvetur leiðtogaráðið þá til þess að þjóðir ESB setji sér markmið til að draga úr notkun á einnota plasti í þeim tilfellum þar sem ekki eru til vistvænn valkostur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert