Stærsti skjálfti í sögu Noregs

Norska eyjan Jan Mayen liggur um 550 km norðaustur af …
Norska eyjan Jan Mayen liggur um 550 km norðaustur af Íslandi. Þar vaknaði fámennur hópur íbúa við 6,8 stiga jarðskjálfta í nótt. Google Maps

„Ég fékk vægt áfall þegar ég vaknaði og horfði á spegilinn og skápana leika á reiðiskjálfi,“ segir Silje Wennesland, tæknistjóri norsku veðurstofunnar á eyjunni Jan Mayen, í samtali við fréttastofuna NTB en hún vaknaði upp með andfælum í nótt við jarðskjálfta sem mældist 6,8 stig og er sá stærsti sem mælst hefur í Noregi.

Upptök skjálftans voru á um 10 kílómetra dýpi 125 kílómetra norðvestur af eyjunni sem er staðsett 550 kílómetra norðaustur af Íslandi og tilheyrir Noregi og sýna mælitæki norsku veðurstofunnar að þetta hafi gerst klukkan 02:49 að norskum tíma, 01:49 að íslenskum en nú er vetrartími genginn í garð í Evrópu og tímamismunur landanna því aðeins ein klukkustund fram til marsloka.

Þeir voru þó ekki margir íbúarnir sem ruku upp með andfælum í nótt því enginn hefur fasta búsetu á Jan Mayen. Þar hafa þó 14 manns aðsetur og starfa þeir allir á sameiginlegri athugunarstöð norsku veðurstofunnar og hersins sem starfrækt er á eyjunni.

Síðasti stóri skjálfti í ágúst 2012

Wennesland segir ekkert ljóst um tjón á húsnæðinu og það verði líklega ekki athugað að ráði fyrr en í birtingu sem verður ekki fyrr en á ellefta tímanum. Hún segir skjálftann hafa varað í um 30 sekúndur og hafi einhverjir starfsmanna á staðnum fundið jörð skjálfa þar áður en ekki í líkingu við það sem nú varð.

Líklega er það rétt mat íbúanna fáu því samkvæmt norsku jarðskjálftavaktstöðinni NORSAR mældist stærsti skjálfti á svæðinu fram að þessu 6,6 stig, eftir því sem Bettina Goertz-Allmann jarðskjálftafræðingur þar segir norska ríkisútvarpinu NRK, en sá mældist 30. ágúst 2012.

Nokkur virkni er í jörð á Jan Mayen-svæðinu sem nýtur einmitt þess heiðurs að státa af nyrsta virka eldfjalli heims, fjallinu Beerenberg sem gaus tiltölulega nýlega á jarðsögulegan mælikvarða, eða árið 1985, auk þess sem þar varð gos í stærra lagi haustið 1970. Ekki hafa margir jarðskjálftar á norsku yfirráðasvæði náð sex stigum, það gerðist þó 2012, sem áður segir, og 21. febrúar 2008 varð 6,2 stiga skjálfti á eyjunni Svalbarða. Var hann sá öflugasti sem mælst hafði í Noregi síðan 31. ágúst 1819 á Helgeland, en skjálftinn þar er talinn hafa verið tæp sex stig, og annar nokkuð snarpur varð svo suður af Ósló 23. október 1904 og hefur síðar verið metinn 5,4 stig.

Fréttir norskra fjölmiðla af skjálftanum:

Aftenposten

NRK

VG

TV2

Avisa Nordland

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert