Sundþjálfari ákærður fyrir barnaníð

Scott Volkers.
Scott Volkers. Skjáskot af vef Sundsambands Ástralíu

Ástralskur sundþjálfari, Scott Volkers, neitaði sök fyrir dómi í dag en hann er sakaður um brot gegn tveimur stúlkum sem hann þjálfaði fyrir áratugum. 

Volkers, sem þjálfaði kvennalandslið Ástralíu í sundi, er ákærður fyrir ósæmilega hegðun í garð tveggja stúlkna yngri en 16 ára. Brotin eiga að hafa verið framin í Brisbane á árunum 1984 til 1988. Hann neitaði sök þegar hann kom fyrir dómara í Brisbane í morgun. 

Volkers var fyrst ákærður árið 2002 en fallið var frá ákærunni hálfu ári síðar. Barnaníðs- og kynferðisbrotadeild lögreglunnar í Queensland ákvað að sækja hann til saka að nýju í kjölfar rannsóknar ástralskra yfirvalda á kynferðisbrotum gagnvart börnum.

Við rannsóknina komu upp mál tengd sundþjálfurum þar á meðal Volkers. Hann starfaði sem sundþjálfari í Ástralíu allt til ársins 2010 en þá flutti hann til Suður-Ameríku þar sem hann þjálfaði í Brasilíu, þar á meðal landsliðið í sundi. 

Önnur af fórnarlömbum Volkers var við dómshúsið í Brisbane í dag þar sem hún sagðist hafa beðið eftir þessari stundu í mörg ár. Það sé orðið löngu tímabært að þær fái að segja sína sögu, að tjá sig um ofbeldið sem hann beitti þær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert