Ein á brúðkaupsmyndinni

Intan Syari í brúðarkjólnum.
Intan Syari í brúðarkjólnum. Instagram-síða Syari

Indónesísk kona sem missti unnusta sinn í Lion Air flugslysinu í lok október hefur látið taka brúðarmyndir af sér einni en unnusti hennar var á leið heim til þess að ganga í hjónaband þegar slysið varð.

Intan Syari og Rio Nanda Pratama ætluðu að ganga í hjónaband 11. nóvember en Pratama var um borð í þotu Lion Air sem fórst skömmu eftir flugtak í Jakarta 29. október. 

Samkvæmt BBC segir Sayari að hún vilji fara að hans síðustu ósk og sat fyrir í myndatöku í hvítum brúarkjól með giftingarhringinn.

Intan Syari og Rio Nanda Pratama ætluðu að ganga í …
Intan Syari og Rio Nanda Pratama ætluðu að ganga í hjónaband 11. nóvember. Instagram/Intan Syari

„Jafnvel þrátt fyrir að sorg mín sé ólýsanleg þá verð ég samt að brosa fyrir þig,“ skrifar unga konan á Instagram. „Ég get ekki verið sorgmædd heldur ætla ég að vera sterk líkt og þú sagðir mér alltaf að vera.“

Að sögn Syari hafði Pratama grínast með að ef hann myndi ekki snúa aftur fyrir brúðkaupið þá yrði hún að láta taka myndirnar og senda honum þær.

Alls voru 189 um borð í þotunni sem var á leið til Pangkal Pinang. Enginn þeirra komst lífs af og skrokkur flugvélarinnar hefur ekki enn fundist. 

Syari hafði áður lýst því á Instagram að hún hefði þekkt unnusta sinn í 13 ár og hann væri hennar fyrsta ást.

Pratama, sem var læknir, hafði farið á ráðstefnu í Jakarta og hafði fyrir ferðalagið grínast með hvað unnusta hans ætti að gera ef hann yrði of seinn í brúðkaupið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert