Sendiherra neitað um gistingu vegna þjóðernis

Hilton Fukuoka Sea Hawk hótelið. Kúbverska sendiherranum var neitað um …
Hilton Fukuoka Sea Hawk hótelið. Kúbverska sendiherranum var neitað um gistingu er hann kom á staðinn á grundvelli þjóðernis.

Bandarískt hótel í Japan hefur hlotið harða gagnrýni hjá þarlendum yfirvöldum eftir að það neitaði sendiherra Kúbu um herbergi, vegna ótta um að það myndi brjóta gegn viðskiptabanni Bandaríkjanna gegn Kúbu.

Sendiherrann, Carlos Pereria, fékk þau skilaboð á Hilton Fukuoka Sea Hawk hótelinu í síðasta mánuði að hann gæti ekki gist þar þar sem hótelið gæti ekki hýst kúbverska gesti. Kúbversk stjórnvöld sendu í kjölfarið frá sér kvörtun vegna málsins og hafa ráðamenn í borginni Fukoka nú tilkynnt forsvarsmönnum hótelsins að ólöglegt sé að neita gestum um herbergi á grundvelli þjóðernis.

Japanska dagblaðið Asahi Shimbun segir sendiráðið hafa bókað gistinguna í gegnum ferðaskrifstofu sem hafi við pöntunina greint frá því hver gesturinn væri. Það var hins vegar ekki fyrr en Pereira kom til borgarinnar sem honum var tilkynnt að hann gæti ekki gist þar.

Segir í kvörtun kúbverskra yfirvalda að með því að yfirfæra bandarísk lög á hótel í Japan séu verið að þrengja að fullveldi Japan. Forsvarsmenn Hilton í Tókýó sögðu hins vegar í samtali við Kyodo fréttaveituna að fyrirtækið verði að fylgja bandarískum lögum af því að höfuðstöðvar þess séu í Bandaríkjunum.

Árið 2006 sektuðu yfirvöld í Mexíkó bandaríska Sheraton hótelið fyrir að vísa á brott 16 manna kúbverskri sendinefnd af hóteli í Mexíkóborg.

Þá neitaði norska hótelið Scandic Edderkoppen kúbverskri sendinefnd um gistingu árið 2007, eftir að hótelið var keypt af Hilton hótelkeðjunni. Kúbverjarnir höfðu gist áður á hótelinu og sagði þáverandi aðstoðarutanríkisráðherra Noregs Raymond Johansen þá í samtali við Reuters að þetta væri „fullkomlega óásættanlegt“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert