„Söfnun byggð á lygi“

Kate McClure og Johnny Bobbit er allt lék í lyndi.
Kate McClure og Johnny Bobbit er allt lék í lyndi. Ljósmynd/GoFundMe

Bandarískt par, sem setti af stað söfnun fyrir heimilislausan mann, hefur verið ákært fyrir þjófnað, blekkingar og samsæri. Segir saksóknari að söfnunin hafi byggt á lygi. Maðurinn sem parið safnaði fyrir er einnig ákærður. 

Kate McClure og Mark D'Amico söfnuðu yfir 400 þúsund Bandaríkjadölum, sem svarar til 50 milljóna króna, fyrir fyrrverandi hermann sem var heimilislaus, Johnny Bobbitt.

Í ágúst höfðaði Bobbitt mál gegn parinu þar sem hann sagðist ekki hafa fengið söfnunarféð greitt. En nú hefur saksóknari í New Jersey ákært parið og einnig Bobbitt sem er ákærður fyrir að vera samsekur.

Lögmaður D'Amico og McClure hefur ekki viljað tjá sig um ákæruna við fjölmiðla. Á blaðamannafundi í gær sagði Scott Coffina, saksóknari í Burlington, að sagan sem parið sagði í tilefni af söfnuninni væri of góð til þess að vera sönn og því miður sé því þannig farið. „Öll herferðin byggði á lygi,“ bætti hann við.

Að sögn Coffina var sagan soðin saman um mánuði áður en herferðin hófst á netinu. Í textanum sem fylgdi með ákallinu kom fram að Bobbitt hafi notað síðustu 20 dalina sína til að aðstoða McClure þegar bíll hennar bilaði árið 2017.

Bobbitt situr í varðhaldi en parið er laust gegn tryggingu til 24. desember. Þau eiga öll yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi verði þau fundin sek. 

Bobbitt og parið komu fyrst fram í nóvember 2017 þegar McClure setti á laggirnar hópsöfnun á GoFundMe þar sem fram kom að þau væru að reyna að endurgreiða heimilislausum manni sem hafði komið henni til bjargar þegar bíll hennar bilaði. 

Mynd af McClure og  Bobbitt, sem er uppgjafahermaður og fíkill sem hefur verið á götunni árum saman, fylgdi með söfnunarsíðunni. Yfir 14 þúsund manns settu pening í verkefnið og margir höfðu orð á því hvað sagan hafi snert við þeim. Samkvæmt sögunni á GoFundMe hafði Bobbitt mælt með því við McClure að hún læsti bílnum á meðan hún biði eftir því að hann kæmi til baka með bensínbrúsa.

Nú er talið að myndin hafi verið tekin eftir að þau þrjú hittust þegar McClure og D'Amico fóru í spilavíti skammt frá þeim stað sem Bobbitt hélt sig, segir í frétt BBC.

Að sögn saksókna notaði parið peningana í bíla, sumarleyfi, rándýra merkjavöru og fjárhættuspil. Bobbitt fékk um 75 þúsund dali í sinn hlut.

Lögreglan hefur farið yfir samskipti þeirra og lesið þúsundir textaskilaboða þar sem parið ræddi fjárhagserfiðleika sína og hvernig þau gætu bjargað málunum. D'Amico hafði jafnvel komið með þá hugmynd að safna meiri peningum með því að gera bókarsamning um sögu þeirra.

Talsmaður GoFundMe segir í samtali við CNN að þeir sem hafi lagt fé í söfnunina muni fá endurgreitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert