Handtekinn með handsprengju

Mótmælendur í Frakklandi hafa klæðst gulum vestum til að sýna …
Mótmælendur í Frakklandi hafa klæðst gulum vestum til að sýna samstöðu. AFP

Lögreglan í Frakklandi hefur handtekið karlmann í vesturhluta landsins sem var með handsprengju í fórum sínum. Maðurinn krafðist þess að mótmælendur myndu fá að hitta Emmanuel Macron, forseta Frakklands. 

Maðurinn var klæddur í skærgult vesti eins og mótmælendur sem hafa komið saman til að mótmæla hækkandi eldsneytisverði í landinu.

Hann var handtekinn í Angers í kjölfar samningaviðræðna sem stóðu yfir í nokkrar klukkustundir, að því er segir á vef BBC.

Lögreglunni barst tilkynning um manninn, sem er 45 ára gamall, um kl. 16:45 að frönskum tíma í gær (15:45 að íslenskum tíma). Hann gafst að lokum upp um sex klukkustundum síðar. 

Að sögn lögreglu hélt maðurinn á handsprengju. Hann krafðist þess að forsetinn myndi taka á móti mótmælendum í frönsku forsetahöllinni í París, höfuðborg landsins. 

Búist er við fjölmenni á götum Parísarborgar í dag þar sem fólk mun koma saman til að mótmæla aðra vikuna í röð. 

Margir eru mjög ósáttir við Macron og segja að hann sé ekki í takti við raunveruleikann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert