22 létust þegar bátur sökk

Í september sökk farþegaferjan MV Nyerere á Viktoríuvatni með þeim …
Í september sökk farþegaferjan MV Nyerere á Viktoríuvatni með þeim afleiðingum að fjölmargir létust. AFP

Tuttugu og tveir létust og óttast er að rúmlega 60 til viðbótar hafi drukknað eftir að bátur sökk á Viktoríuvatni í Úganda í Afríku. Talið er að um 100 manns hafi verið um borð í bátnum sem sökk í vondu veðri í gær.

Talsmaður lögreglunnar segir að 22 lík hafi fundist og að 26 hafi verið bjargað. Einn þeirra sem komst lífs af segir að það hafi verið a.m.k. 90 manns um borð þegar báturinn sökk. 

Fólkið hafði verið að skemmta sér í bátnum, að því er fram kemur í frétt AFP-fréttaveitunnar. Báturinn sökk skammt frá Mutima-ströndinni í Mukono-héraði, sem er ekki mjög langt frá Kampala, höfuðborg landsins. 

Lögreglan telur að rekja megi slysið til þess hversu slæmt veðrið var og að báturinn hafi verið ofhlaðinn. Þá segir lögreglan að margir hafi verið undir áhrifum áfengis. 

Íbúar í nágrenninu segja að báturinn hafi verið leigður út um hverja helgi þar sem fólk hafi komið saman til að dansa, drekka og skemmta sér. Þetta sé ekki í fyrsta sinn sem of margir hafi verið um borð. 

Á meðal þeirra sem létust voru sjómenn sem voru að veiðum skammt frá. Þeir fóru á staðinn til að aðstoða fólkið en of margir reyndu að komast um borð í bátinn þeirra með þeim afleiðingum að hann sökk einnig. 

Margir hafa farist á Viktoríuvatni, sem er stærsta stöðuvatn Afríku. Í september létust mörg hundruð þegar farþegaferjan MV Nyerere sökk skammt undan strönd Tansaníu.

Vatnið þekur yfir 70.000 ferkílómetra og er því álíka stórt og Írland. Tansanía, Úganda og Kenía liggja að vatninu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert