Brjóstapúðar taldir tengjast fágætu meini

Milljónir kvenna um allan heim eru með brjóstapúða grædda í …
Milljónir kvenna um allan heim eru með brjóstapúða grædda í sig. AFP

Ákveðin tegund brjóstapúða, sem grædd hefur verið í milljónir kvenna um allan heim, er talin geta valdið fágætu krabbameini og hefur frönskum skurðlæknum verið ráðlagt að hætta notkun þeirra. Í frétt Guardian um málið segir að í það minnsta 615 konur um allan heim  sem eru með eða höfðu slíka púða í brjóstum sínum, hafi fengið eitlaæxli og að sextán þeirra hafi látist.

Púðarnir eru taldir tengjast sjaldgæfum sjúkdómi sem ber skammstöfunina ALCL (anaplastic large cell lymphoma), sem myndast í örvef í kringum púðann. Fyrstu einkennin eru yfirleitt verkir og bólgur í brjóstinu.

Í frétt Guardian segir að þær konur sem láti fjarlægja púðana sem og örvefinn geti náð fullum bata en ef ekkert sé að gert geti meinið breiðst út um allan líkamann og ógnað lífi konunnar. 

Púðarnir sem hér er um að ræða hafa ákveðna áferð, þ.e. ekki slétt yfirborð, og því hefur heilbrigðiseftirlitið í Frakklandi mælst til þess að skurðlæknar þar í landi skipti yfir í púða með annarri áferð á meðan málið verður rannsakað.

Í Bretlandi eru flestir brjóstapúðar sem græddir eru í konu af þessum toga, þ.e. ekki með slétta yfirborðsáferð. Þar hafa 45 tilfelli krabbameins verið tengd púðunum og eitt andlát. Heilbrigðiseftirlitið þar telur líkur á krabbameini vegna púðanna því vera einn á móti 24 þúsund.

Fyrsta ábendingin um fylgni milli púðanna og krabbameinsins kom fram árið 1997 og vöktu heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi athygli á því árið 2011 eftir að tilfelli höfðu komið upp í fleiri löndum.

Í nýjustu tilmælum heilbrigðisyfirvalda er enn ítrekað að ALCL sé sjaldgæft krabbamein. Engu að síður sé nauðsynlegt að heilbrigðisstarfsfólk og sjúklingar viti af því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert