Stefnt á lokun kjarnakljúfa

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, segist alveg gera sér grein fyrir reiði mótmælenda vegna hækkunar á eldsneytissköttum en hann muni ekki gefa eftir í þeirri viðleitni franska ríkisins að draga úr mengun og bæta lífsgæði þegar kemur að umhverfismálum.

Aðgerðir franskra yfirvalda séu nauðsynlegar en að skattarnir á eldsneyti verði aðlagaðir að hækkandi heimsmarkaðsverði á olíu til þess að komast hjá því að almenningur þurfi að gjalda fyrir það. 

Að sögn Macron stendur til að loka 14 af 58 kjarnakljúfum landsins fyrir árslok 2035. Af þeim verður búið að stöðva starfsemi 4-6 fyrir árið 2030. 

Frétt Le Monde


Mótmælendur í gulum vestum hafa verið áberandi í Frakklandi undanfarið og um helgina brutust út átök á Champs-Elysees breiðstrætinu þegar mótmælendur kveiktu í bílum og lögregla svaraði með táragasi.

Hreyfingin varð til í síðasta mánuði þar sem hækkun eldsneytisskatta var mótmælt. Klæddust mótmælendur gulum öryggisvestum sem eru í öllum frönskum bifreiðum. Mótmælin hafa fengið mikinn stuðning meðal fólks á landsbyggðinni þar sem flestir eiga bíla en hreyfingunni hefur vaxið fiskur um hrygg þar sem margir eru ósáttir við ríkisstjórn landsins og forseta. 

Mótmælin tengjast meðal annars því að fólki finnst Macron vera forseti forréttindastétta í stórborgum. Fólk krefst úrbóta í málefnum fátæks fólks og að Macron eigi að segja af sér. Það er ekki nýtt af nálinni að Frakkar rísi upp og mótmæli enda löng hefð fyrir mótmælagöngum og aðgerðum af ýmsu tagi. Hvort sem hækkun á eldsneytissköttum sé að ræða eða hjónabönd samkynhneigðra. 

Sérstaða mótmælanna nú er að þau virðast blómstra án leiðtoga og eru skipulögð á samfélagsmiðlum. Eins virðist fólk koma úr ólíkum þjóðfélagshópum og vera með ólíkar stjórnmálaskoðanir. 

Að vísu voru það einkum stuðningsmenn Marine Le Pen og þjóðernisflokks hennar sem voru áberandi í ofbeldisfullum mótmælum á Champs-Elysees á laugardag. En eins og Danielle Tartakowsky, prófessor í samtímasögu við Paris 8 háskólann, segir þá er ekki hægt að segja að mótmælendur séu einsleitur hópur. Því margir þeirra eru vinstrimenn og aðrir eru fyrrverandi stuðningsmenn Macron. Enda sýnir nýleg skoðanakönnun að gulu vestin njóta stuðnings 70% aðspurðra.

Um 300 þúsund manns tóku þátt í mótmælum 17. nóvember en á laugardaginn voru mótmælendur um 100 þúsund talsins og er þykir þetta til marks um að mótmælaöldunni sé að lægja. Ef mótmælendur verða ekki nema 50 þúsund talsins næsta laugardag þá telja sérfræðingar að þetta sé búið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert