Sjö dæmdir fyrir morðið á Các­eres

Berta Các­eres.
Berta Các­eres. AFP

Sjö karlar voru í gær dæmdir sekir um að hafa myrt hondúrska umhverfissinnann Bertu Các­eres en hún var skotin til bana árið 2016. Sjömenningarnir eiga yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsi hver, samkvæmt niðurstöðu dómsins sem var kveðinn upp í höfuðborg Hondúras, Tegucigalpa, eftir sex vikna löng réttarhöld.

Các­eres var heimsþekkt­ fyrir baráttu sína í umhverfismálum. Hún var skot­in til bana á heim­ili sínu í mars 2016 en árið áður hlaut Các­eres Goldm­an-verðlaunin, sem tal­in eru helstu verðlaun sem veitt eru þeim sem starfa í grasrót­ar­sam­tök­um á sviði um­hverf­is­mála. Hún var verðlaunuð fyr­ir að leiða bar­áttu inn­fæddra (Lenca) gegn því að reist verði stífla fyr­ir vatns­afls­virkj­un sem hefði þýtt að stór svæði inn­fæddra hefðu farið und­ir vatn og eins hefði aðgengi íbúa að hreinu vatni spillst.

Dómararnir þrír í Tegucigalpa sakfelldu Sergio Rodriguez, sem er einn af yfirmönnum raforkufyrirtækisins Desarrollos Energeticos SA (DESA), fyrir að hafa skipulagt morðið en fyrirtækið byggði vatnsaflsvirkjunina og var það niðurstaða dómaranna að án efa hafi hann ásamt fyrrverandi öryggisstjóra DESA, Douglas Bustillo, og Mariano Diaz, sem er hermaður, skipulagt morðið. Þeir réðu fjóra leigumorðingja til að fremja ódæðið og brutust tveir menn inn á heimili hennar og skutu. Fengu þeir 4 þúsund Bandaríkjadali fyrir verkefnið. 

Các­eres var 43 ára þegar hún var myrt en hún lét eftir sig fjögur börn. Henni hafði ít­rekað verið hótað líf­láti fyr­ir mót­mæli sín. Hún var skot­in að næt­ur­lagi á heim­ili sínu í bæn­um La Esper­anza og í fyrstu var reynt að halda því fram að hún hafi verið drepin af innbrotsþjófum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert