Segir þjóðarleiðtoga minna á óábyrga krakka

„Maður þarf ekki að taka þátt í skólaverkfall. Það er …
„Maður þarf ekki að taka þátt í skólaverkfall. Það er val hvers og eins, en af hverju ættum við að vera að læra fyrir framtíð sem bráðlega verður kannski ekki til lengur? Að mínu mati er þetta mikilvægara en skólinn,“ segir Greta Thunberg sem mótmælir loftslagsbreytingum reglulega við sænska þinghúsið. Ljósmynd/Instagram-síða Gretu Thunberg

Greta Thunberg er 15 ára sænskur nemandi sem hefur frá því í ágúst farið reglulega í verkfall frá skólanum til að mótmæla loftslagsbreytingum. Hún kemur sér þá fyrir við sænska þinghúsið með stórt skilti sem á stendur „Skólaverkfall fyrir loftslagið“.

Um 20.000 nemendur víða um heim hafa undanfarnar vikur og mánuði fylgt fordæmi Gretu og segir Guardian skólaverkföllin breiðst út til að minnsta kosti 270 bæja og borga í Ástralíu, Bretlandi, Belgíu, Bandaríkjunum og Japan.

Greta er nú stödd í Katowice í Póllandi, þar sem loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer fram þessa dagana. „Aðgerðir til að berjast gegn loftslagsbreytingum munu eiga sér stað, hvort sem þjóðarleiðtogum heims líkar það eða ekki,“ sagði Greta við fundargesti á ráðstefnunni og sakaði leiðtoga heims um að haga sér eins og óábyrgir krakkar.

Breytingar verða hvort sem þeim líkar það eða ekki

Greta, sem er ásamt fleiri nemendum á ráðstefnunni, fundaði með Antonio Guterrez, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, á mánudag og sagði við hann að nemendur væru að bregðast við vegna skorts á forystu hjá alþjóðasamfélaginu.

„Í 25 ár hefur fjöldi manna komið á loftslagsráðstefnur Sameinuðu þjóðanna og beðið leiðtoga heims að stöðva losunina. Það hefur greinilega ekki virkað af því að útblásturinn heldur áfram að aukast. Þess vegna ætla ég ekki að biðja leiðtoga heims um að láta sig framtíðina varða. Þess í stað ætla ég að láta þá vita að breytingarnar verða hvort sem þeim líkar það eða ekki,“ sagði Greta.

„Þar sem leiðtogar okkar haga sér eins og börn verðum við að taka á okkur ábyrgðina sem þeir hefðu átt að gangast við fyrir löngu. Við verðum að skilja hvað eldri kynslóðir hafa skilið eftir fyrir okkur. Sóðaskapinn sem þær hafa skilið eftir verðum við að hreinsa upp og búa með. Við verðum að láta í okkur heyra.“

Þarf að virkja æskuna

Fulltrúar tæplega 200 þjóða taka þátt í loftslagsráðstefnunni í Póllandi og er helsta verkefni fundarmanna að ákvarða sýnina á það hvernig tekist verði á við áframhaldandi hlýnun jarðar og hvernig mæta eigi markmiðum Parísarsamkomulagsins frá 2015.

Sagði Guterres í gær að yngri kynslóðir verði að hjálpa til að við að drífa áfram og ljúka þeim verkum sem byrjað sé á í dag. „Við verðum að virkja kraft þeirra, uppfinningar og pólitískt vald til að auka metnað í loftslagsmálum.“

Ástralski  námsmaðurinn Toby Thorpe er einnig staddur á loftslagsráðstefnunni. „Við erum saman í þessu,“ sagði hann. Sameinuð erum við sterk og við munum ekki gefast upp.“

Guardian segir Matt Canavan, auðlindaráðherra Ástralíu hafa hafnað skólaverkföllum þar í landi með orðunum: „Það besta sem maður lærir við að taka þátt í mótmælum er hvernig maður komist á atvinnuleysisbætur.“ Síðar hafi þó öldungadeild ástralska þingsins samþykkt stuðningsyfirlýsingu við aðgerðir nemendanna.

Fulltrúar tæplega 200 þjóða taka þátt í loftslagsráðstefnunni í Póllandi …
Fulltrúar tæplega 200 þjóða taka þátt í loftslagsráðstefnunni í Póllandi og er helsta verkefni fundarmanna að ákvarða sýnina á það hvernig tekist verði á við áframhaldandi hlýnun jarðar og hvernig mæta eigi markmiðum Parísarsamkomulagsins frá 2015. AFP

Aldrei of lítill til að leggja sitt af mörkum

Greta segir hafa verið frábært að fylgjast með útbreiðslu skólaverkfallanna. „Þetta sýnir bara að maður er aldrei of lítill til að leggja sitt af mörkum,“ sagði hún. Hjá henni kviknaði hugmyndin eftir að bandarískir nemendur gengu úr kennslustundum í fyrra til að mótmæla skotvopnalöggjöf í kjölfar skotárása í skólum.

Greta er afkomandi Nóbelsverðlaunahafans Svante Arrhenius sem árið 1896 reiknaði fyrst út gróðurhúsaáhrifin sem losun koltvísýrings veldur.

Hún segir skólafélaga sína í fyrstu hafa neitað að taka þátt í mótmælunum. „Ég varð að gera þetta ein,“ segir hún. Fyrstu tvær vikurnar mótmælti hún daglega fyrir utan þinghúsið, en nú mætir hún þangað á hverjum föstudegi og segist ekki ætla að hætta fyrr en Svíþjóð dragi úr losun sinni um 15% á ári. „Svíþjóð er ríkt land og hlutfall losunar á hvern íbúa er meiri, þannig að við verðum að draga meira úr henni [en aðrir].“

Hún er líka með skilaboð fyrir aðra námsmenn. „Maður þarf ekki að taka þátt í skólaverkfalli. Það er val hvers og eins, en af hverju ættum við að vera að læra fyrir framtíð sem bráðlega verður kannski ekki til lengur? Að mínu mati er þetta mikilvægara en skólinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert