Flynn sleppur við fangelsi

Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi forseta Bandaríkjanna.
Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi forseta Bandaríkjanna. AFP

Ekki verður farið fram á fangelsisrefsingu yfir fyrr­ver­andi þjóðarör­ygg­is­ráðgjafa forseta Bandaríkjanna, Michael Flynn. Sérstakur saksóknari, Robert Mueller, greindi frá þessu í gærkvöldi. Ástæðan er hversu samvinnuþýður Flynn hefur verið við rannsóknina á afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016.

Haft er eftir Mueller í dómsskjölum að Flynn, sem viðurkenndi í fyrra að hann hefði logið um samskipti sín við Rússa í kjölfar kosningasigurs Donalds Trump í nóvember 2016, hafi veitt aðstoð við þessa rannsókn sem og fleiri alríkisrannsóknir. Alls var Flynn yfirheyrður 19 sinnum. 

Mueller greindi einnig frá því við alríkisdómstólinn í Washington að þrátt fyrir alvarleg brot væri ferill Flynn hjá hernum og leyniþjónustu varnarmálaráðuneytisins óflekkaður. Þessi niðurstaða Mueller kom ýmsum á óvart í gærkvöldi en dómsuppkvaðningu í máli Flynn hefur ítrekað verið frestað undanfarið ár. 

James Comey, fyrrverandi forstjóri FBI, sem Trump vék úr embætti á sínum tíma, segir að Trump hafi beitt hann þrýstingi fyrir brottvikninguna, reynt að fá hann til að stöðva rannsókn FBI á máli Mike Flynn, þáverandi þjóðaröryggisráðgjafa forsetans. Flynn játaði sig síðar sekan um að hafa logið að FBI um samskipti sín við sendiherra Rússlands við yfirheyrslur vegna rannsóknarinnar á tilraunum Rússa til að hafa áhrif á kosningabaráttuna í Bandaríkjunum árið 2016.

 Flynn neyddist til að segja af sér sem þjóðaröryggisráðgjafi í febrúar 2017, aðeins 23 dögum eftir að hann tók við embættinu, þegar í ljós kom að hann hafði sagt Mike Pence varaforseta ósatt um samræður sínar við sendiherra Rússlands, m.a. um hugsanlegt afnám refsiaðgerða gegn landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert