Missa réttindi með því að dvelja erlendis

Novo Nordisk er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með höfuðstöðvar í Danmörku en …
Novo Nordisk er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með höfuðstöðvar í Danmörku en starfsemi út um allan heim.

Ef frumvarp dönsku ríkisstjórnarinnar og danska Þjóðarflokksins verður samþykkt eiga þeir Danir sem starfa eða búa erlendis í meira en eitt ár síðustu átta árin ekki rétt á atvinnuleysisbótum þrátt fyrir að hafa greitt í atvinnutryggingasjóð.

Þetta kemur fram á vef Politiken sem hefur að undanförnu fjallað um fyrirhugaðar breytingar á lögum. Nýju lögin eiga að taka gildi um áramót. Svo virðist sem fólk sem starfar erlendis geri sér ekki almennt grein fyrir þessum breytingum og hvaða áhrif þær hafi á stöðu þess.

Félag atvinnurekenda segir að þetta muni skapa vandræði fyrir nokkur þeirra fyrirtækja sem eru innan þeirra vébanda. Samtök iðnaðarins taka í sama streng. 

Ef frumvarpið verður að lögum hefur það í för með sér að fólk verður að dvelja í Danmörku eða öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins í sjö af síðustu átta árum til þess að eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Skiptir engu þó svo viðkomandi hafi greitt slík gjöld allan tímann. Fyrirtæki óttast að þetta geri alþjóðlegum fyrirtækjum með höfuðstöðvar í Danmörku erfiðara um vik með að senda starfsmenn til starfa erlendis í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert