Þyrftir að vera bæði heyrnarlaus og blindur

„Þú þarft að vera bæði heyrnarlaus og blindur til þess að heyra hvorki né sjá þessa miklu reiði,“ sagði forsætisráðherra Frakklands, Édourard  Philippe, eftir að hafa kynnt ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fresta skattahækkunum og auka fjárframlög til fátækra.

Ríkisstjórn Frakklands hefur samþykkt að setja hálfan milljarð evra, sem svarar til 70 milljarða króna, í neyðaraðstoð til fátækra heimila. Eins að fresta hækkun skatta á bensín og dísilolíu um hálft ár til að reyna að binda enda á götumótmæli og óeirðir í París og fleiri borgum landsins síðustu vikur.

Þetta er í fyrsta skipti sem forseti Frakklands, Emmanuel Macron, lætur undan þrýstingi en vinsældir hans hafa dalað mjög að undanförnu. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að stjórnmálaskýrendur segja að stjórn Macrons hafi verið í kreppu vegna mótmælanna. Þetta er í fyrsta skipti sem hún neyðist til að gefa eftir vegna mótmæla og er það álitið mikið áfall fyrir Macron því að hann hefur sagt að hann sé staðráðinn í að láta ekki götumótmæli og verkföll hindra umbætur sem hann telur nauðsynlegar, ólíkt mörgum forvera hans. Macron hafði þvertekið fyrir að breyta stefnunni, sagt að nauðsynlegt væri að hækka skattana á bensín og dísilolíu til að flýta fyrir skiptum yfir í umhverfisvænni orku í samgöngum. Með því að hætta við skattahækkunina myndi hann grafa undan umhverfisstefnu stjórnar sinnar.

Skattar verða ekki látnir stefna einingu þjóðarinnar í hættu, sagði Philippe eftir að hafa greint frá ákvörðun stjórnvalda. Auk þess að fresta hækkun á eldsneytissköttum um hálft ár verður ekki heimilt að hækka verð á rafmagni og gasi út veturinn. 

Ekki var ljóst í gær hvort tilslökun stjórnarinnar nægði til að lægja öldurnar. Skipuleggjendur mótmælanna og leiðtogar stjórnarandstöðunnar á þinginu sögðu að ákvörðun stjórnarinnar dygði ekki. Hún vonar þó að tilslökunin verði til þess að stuðningurinn meðal almennings við mótmælin minnki og þau hjaðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert