Vilja handtaka ráðgjafa krónprinsins

Tyrkneskur saksóknari hefur farið fram á að tveir nánir samstarfsmenn sádiarabíska krónprinsins, Mohammed bin Salman, verði handteknir vegna morðsins á blaðamanninum Jamal Khashoggi í Istanbul 2. október.

Khashoggi var myrtur eftir að hafa komið á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabaíu en þar ætlaði hann að fá pappíra tengda fyrirhuguðu brúðkaupi.

Yfirsaksóknari í Istanbul lagði fram beiðni um handtökuskipun á hendur Ahmad al-Assiri og Saud al-Qahtani en þeir eru báðir búsettir í Sádi-Arabíu.  

Assiri var oft viðstaddur lokaða fundi krónprinsins með erlendum háttsettum einstaklingum og Qahtani var helsti ráðgjafi prinsins. Báðir voru reknir úr starfi eftir að stjórnvöld í Riyadh viðurkenndu loks að Khashoggi hefði verið drepinn á ræðismannsskrifstofunni. Samkvæmt tyrkneskum yfirvöldum var teymi 15 Sádi-Araba sent til borgarinnar til þess að drepa Khashoggi.

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, segir að skipun um morðið hafi komið frá æðstu stöðum en tekið fram að hún hafi ekki komið frá konungi landsins, Salman.

Stjórnvöld í Riyadh hafa handtekið 21 í tengslum við morðið en þrátt fyrir tilgátur um að krónprinsinn hafi staðið á bak við morðið hafa yfirvöld ítrekað neitað aðild hans. 

Tveir háttsettir öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins sögðu í gær að eftir fund með yfirmönnum CIA hafi þeir styrkst í þeirri trú að krónprinsinn hafi skipulagt morðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert