Framseldur frá Danmörku fyrir þátt í þjóðarmorði

Höfuðkúpur fórnarlamba þjóðarmorðanna í Rúanda eru nú til sýnis í …
Höfuðkúpur fórnarlamba þjóðarmorðanna í Rúanda eru nú til sýnis í kirkjunni í bænum Nyamata, þar sem einhver verstu voðaverkin voru framin árið 1994. Mynd úr safni. AFP

Yfirvöld í Danmörku hafa framselt til Rúanda mann sem grunaður er um að hafa tekið þátt í þjóðarmorðinu á tútsum í landinu 1994. Frá þessu er greint á vef BBC, sem segir embætti saksóknara í Rúanda saka manninn, Wenceslas Twagirayezu, um að hafa hvatt til ofbeldis í þjóðarmorðunum í Rúanda 1994.

Á Twagirayezu, sem er  50 ára, að hafa leitt uppreisnarsveit hútú-manna í árásum gegn tútsum í norðvesturhluta landsins.

Twagirayezu, sem hefur verið búsettur í Danmörku frá 2001, hefur barist gegn framsalinu, en er búinn að vera í gæsluvarðhaldi í dönsku fangelsi frá því í maí í fyrra.

Að sögn blaðsins New Times, sem er hliðhollt stjórnvöldum í Rúanda, þá er Twagirayezu annar Rúandabúinn sem Danir framselja. Sá fyrri var Emmanuel Mbarushimana og var hann í fyrra dæmdur til lífstíðarfangelsis, þremur árum eftir framsal til Rúanda.

Dauðarefsingin var afnumin í Rúanda árið 2007 sem liður í aðgerðum til að hvetja yfirvöld þeirra erlendu ríkja sem mótfallin eru dauðarefsingunni til að framselja þá sem grunaðir eru um aðild að þjóðarmorðunum.

Hafa yfirvöld í Rúanda gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur rúmlega 800 einstaklingum sem þau saka um að voðaverk á þeim 100 dögum sem blóðbaðið stóð yfir.

Talið er að um 800.000 tútsar hafi verið drepnir í aðgerðunum og mun minni fjöldi hútú-manna.

Twagirayezu starfaði fyrir CDR-stjórnmálahreyfingu hútú-manna sem sökuð hefur verið um að bæði hvetja til ofbeldisverka og framkvæma þau.

Hann er fyrrverandi barnaskólakennari og er sagður hafa leitt sveit uppreisnarmanna í Rubavu-héraði sem grunuð er um að hafa skipulagt morð á almennum borgurum sem leitað höfðu skjóls í háskóla í héraðinu.

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert