Fimm í haldi eftir árásina

Franskur hermaður stendur vörð við jólamarkaðinn í Strassborg. Hundruð lögreglumanna …
Franskur hermaður stendur vörð við jólamarkaðinn í Strassborg. Hundruð lögreglumanna leita nú árásarmannsins. AFP

„Ég heyrði byssuskot og svo var algjör ringulreið. Fólk var á hlaupum um allt,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Fatih, sem var í hópi vitna að skotárásinni í Strassborg í Frakklandi í gærkvöldi. Segist Fatih hafa séð þrjá liggja slasaða við jólatréð á Kléber-torginu þar sem árásin var gerð. 

Þrír létust í árásinni og 13 eru særðir, þar af átta alvarlega. 

AP-fréttaveitan segir fimm nú vera í haldi lögreglu vegna málsins, árársarmannsins sjálfs er þó enn leitað.

Taílenskir fjölmiðlar greindu frá því í morgun að taílenskur maður, Anupong Suebsamarn, sé einn hinna látnu. Er hann talinn hafa verið í fríi í Strassborg með konu sinni. Roland Ries, borgarstjóri Strassborgar, hefur staðfest að taílenskur ferðamaður sé í hópi fórnarlambanna, sem flest hver séu karlmenn. „Sum þeirra voru skotin í höfuðið,“ sagði Ries.

Ekki hefur verið greint frá nafni hinna fórnarlambanna, né þeirra sem særðust, utan að engin börn eru sögð vera í hópi hinna særðu. Þá er einn hermaður sagður hafa særst lítillega er byssukúla endurkastaðist í hann.

Sjúkraflutningamenn hlúa að einum hinna særðu eftir árásina á jólamarkaðinn.
Sjúkraflutningamenn hlúa að einum hinna særðu eftir árásina á jólamarkaðinn. AFP

Enginn sjúkrabíll komst að

BBC hefur eftir Pater Fritz, sem einnig var vitni að árásinni, að hann hafi heyrt skotin og síðar fundið mann með skotsár liggjandi á brú. Hann gerði endurlífgunartilraunir á manninum þar sem enginn sjúkrabíll komst þar að, en án árangurs. „Þegar við vorum búin að reyna endurlífgun í 45 mínútur hættum við af því að læknirinn sem leiðbeindi okkur símleiðis sagði þetta vera tilgangslaust,“ sagði Fritz.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti lýsti yfir samúð með þjóðinni allri á Twitter í gær, en hann hefur boðað til neyðarfundar með ríkisstjórninni í dag vegna málsins.

Lögreglumenn að störfum eftir árásina í gærkvöldi.
Lögreglumenn að störfum eftir árásina í gærkvöldi. AFP

Handsprengjur fundust á heimili hans

Hundruð lög­reglu­manna leita enn manns­ins, en lögregla er nú sögð vita hver hann er. Franskir fjölmiðlar nefna hann Cherif C og segja hann hafa verið á lista lögreglu yfir róttæka einstaklinga. Húsleit hafði verið gerði á heimili hans í Neudorf-hverfinu í gærmorgun vegna óskylds máls. Maðurinn var ekki heima er lögregla kom á staðinn, en handsprengjur fundust hins vegar heima hjá honum.

BBC segir manninn hafa flúið árásarvettvanginn í gærkvöldi eft­ir að hafa skipst á skot­um við lög­reglu og her­menn skammt frá jóla­markaðinum. Hann tók sér því næst far með leigubíl sem ók honum að lögreglustöð í Neudorf-hverf­inu og var það leigubílstjórinn sem greindi lögreglu frá því að hann væri sár á vinstra fæti. 

Lögregla leitar mannsins í Strassborg. Hann er sagður vera síbrotamaður …
Lögregla leitar mannsins í Strassborg. Hann er sagður vera síbrotamaður sem tók róttæka íslamstrú í fangelsi. AFP

Síbrotamaður sem gerðist róttækur í fangelsi

Ekki er vitað hverj­ar ástæður árás­ar­inn­ar voru og hefur ekki verið staðfest að um hryðjuverk hafi verið að ræða. AFP segir manninn engu að síður hafa verið til rannsóknar hjá lögreglu vegna morðtilraunar. Er Cerif C, sem er 29 ára, sagður hafa setið í fangelsi í bæði Frakklandi og Þýskalandi og lýsir franska BMF TV-sjónvarpsstöðin honum sem „síbrotamanni“" sem einnig hafi verið „vandræðaunglingur“.  

Hefur Laurent Nuñez, aðstoðarinnanríkisráðherra Frakklands, staðfest að maðurinn sem leitað er að eigi nokkra fangelsisdóma að baki. Enginn þeirra dóma tengist hins vegar hryðjuverkum með neinum hætti. Sagði Nuñez  það þó hafa verið í fangelsi sem maðurinn snerist til íslamstrúar og gerðist róttækur.

246 manns hafa farist í hryðjuverkaárásum í Frakklandi frá því árás var gerð á Bataclan-skemmtistaðinn í París í lok árs 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert