Hættu að taka við reiðufé eftir innbrot

Eigendur bars í London hafna nú seðlum, eftir hrinu innbrota.
Eigendur bars í London hafna nú seðlum, eftir hrinu innbrota. AFP

Eigendur knæpu nokkurrar í suðurhluta Lundúnaborgar ákváðu að hætta að taka við reiðufé, því reiðufé þeirra öllu hefur svo oft verið stolið af óprúttnum innbrotsþjófum. Nú tekur staðurinn aðeins við kortagreiðslum.

Barinn heitir The Crown and Anchor. Þangað verða viðskiptavinir nú að koma með kort, því seðlar eru verðlausir við barinn. Í tilkynningu til viðskiptavina um þessi efni stóð: „Því miður, en svona er gervihnattaöld.“

Arber Rozhaja eigandi barsins segir í samtali við fréttavef breska ríkisútvarpsins að hann hafi fengið sig fullsaddan af innbrotsþjófum sem kæmu í skjóli nætur til að stela ágóða dagsins í reiðufé. Aðeins 10-13% af peningunum sem komu í kassann voru reiðufé, þannig að Rozhaja afréð að hætta bara með reiðufé.

Hér á Íslandi mætti ætla að hlutfall reiðufjár í svipuðu umhverfi sé ekki ósvipað þessu. Smám saman ná yfirhöndinni rafrænar lausnir, eins og debetkort og nú síðast greiðslur í gegnum snjallsímana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert